07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Einar Árnason):

Það er best að byrja á því, sem jeg gleymdi í framsöguræðu minni, að fjvn. tekur aftur brtt. undir lið VIII á þskj. 556.

Jeg skal þá geta þess, að nefndin er yfirleitt fremur andvíg þeim brtt., sem hafa í för með sjer nokkur veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð.

Þetta frv. er orðið svo fyrirferðarmikið, að nefndin sjer eigi fært að hækka svo nokkru nemi þá útgjaldaliði, sem fyrir eru, eða bæta nýjum inn, og í samræmi við þessa skoðun nefndarinnar eru brtt. hennar sniðnar.

Þá er að minnast á einstakar brtt. í þeirri röð, sem talað hefir verið fyrir þeim.

Meiri hluti nefndarinnar er fremur hlyntur styrkveitingu til aðgerðar á bryggjunni í Stykkishólmi. Er þar um mannvirki að ræða, sem er í hættu statt og nauðsyn er að bjarga frá algerðri eyðileggingu.

Þá er brtt. um styrkveitingu til Kvenrjettindafjelags Íslands. Jeg fyrir mitt leyti er ekki svo fróður um kvenfjelög yfirleitt, að jeg geti gert mjer fulla grein fyrir muninum á hinum ýmsu kvenfjelögum. En það hefir mjer skilist, að þetta fjelag hafi upphaflega verið stofnað í „pólitískum“ tilgangi, með það fyrir augum að ná jafnrjetti við karlmenn. Jeg lít nú svo á, að þessu marki sje náð, en vel getur verið, að fjelagið hafi síðan skift um hlutverk. En af ókunnugleika á því, hvaða stefnu eða starfssvið fjelagið hefir nú, getur meiri hluti nefndarinnar ekki mælt með þessari brtt.

Nefndin er meðmælt breytingartillögu hv. 2. landsk. þm. (SJ) um styrk til dragferju á Skjálfandafljóti. Er þessi veiting í samræmi við það, sem þegar er komið inn í næsta árs fjárlagafrv., og enn fremur við það, sem veitt hefir verið til samskonar fyrirtækja, eins og hv. flm. (SJ) tók fram.

Þá eru brtt. hv. 2. þm. Rang. (GGuðf). Hin fyrsta þeirra er um utanfararstyrk læknisins á Vífilsstöðum. Fyrir þinginu hefir legið fjöldi beiðna um utanfararstyrki til að sækja allskonar fundi, sagnfræðingafund, náttúrufræðingafund, biskupafund o. s. frv. Enn fremur þessi beiðni nefnds læknis til að sækja berklalæknafund. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að gera upp á milli þessara styrkbeiðna, og hefir því engar till. gert í þessu efni. En hún hefir látið í ljós við hæstv. stjórn, að ef hún vildi bera fram till. um að veita eina upphæð í þessu skyni, þá skyldi hún (nefndin) taka hana til athugunar. En slík till. hefir ekki komið fram, og lætur nefndin hv. deild því sjálfráða, hvort hún vill veita þennan styrk, en hefir sjálf óbundnar hendur við atkvgr.

Út af ummælum hæstv. atvrh. (KIJ). hvort styrknum til bifreiðaferða hjer austur yfir fjall skuli varið til vöru- eða mannflutninga, skal jeg taka það fram, að nefndin álítur, að það sje samningsmál milli stjórnarinnar og viðkomandi sýslufjelaga, og vill því ekki setja neinar reglur um þetta atriði.

Þá er enn styrkbeiðni til unglingaskóla í Vík. Menn muna, að samskonar till var á ferðinni við umr. fjárlaganna. Nefndin er enn, eins og þá, á móti þessari brtt., mikið vegna þess, að henni er ljóst, að samþykt hennar muni draga alvarlegan dilk á eftir sjer. Margir skólar munu á eftir koma, sem ekki mundi hægt að neita um samskonar styrk með neinum rjetti.

Þá er enn brtt. frá sama háttv. þm. (GGuðf), um að veita Elísabetu Jónsdóttur, ekkju Pjeturs Guðmundssonar kennara á Eyrarbakka, 300 kr. Meiri hluti nefndarinnar er þessari till. hlyntur, en vill hins vegar láta það koma skýrt fram, að þessi fjárveiting sje aðeins í eitt skifti fyrir öll.

Þá kem jeg að brtt. hv. 5. landsk. þm. (JJ), um að styrkur til Kristjáns Jónassonar í Borgarnesi sje feldur niður. Þetta mál er gamall kunningi, og eru báðar fjvn. þingsins löngu orðnar þreyttar á því. Þær hafa altaf verið þessum styrk mótfallnar, en málið hefir hins Vegar verið sótt af svo miklu kappi í Nd., að nefndin hefir ekki viljað skifta sjer af málinu lengur, en greiða mun hún atkvæði með þessari tillögu.

Nefndin er meðmælt 500 kr. styrk til Hjálmars Lárussonar hins oddhaga.

Þá kemur að tveim brtt. sama hv. þm. (JJ), á þskj. 577, um símalagningar á Austurlandi. Er hjer farið fram á allstóra upphæð, og komu þessar brtt. mjer í raun og veru á óvart, og sjer meiri hluti nefndarinnar sjer ekki fært að leggja þeim liðsyrði, þar eð hann lítur svo á, að lítt hugsanlegt sje, að þessir símar verði lagðir, þó að till. væru samþyktar, vegna þess að enginn undirbúningur hefir verið gerður um flutning á efni, sem er allerfiður á þeim slóðum.

Enn fremur skal jeg geta þess, að verði þessar brtt. samþyktar, þá mun jeg við 3. umr. bera fram brtt. um, að sími verði lagður frá Akureyri inn Eyjafjörð og jafnframt um Öxnadal og Hörgárdal. Fæ jeg ekki annað sjeð en að þessir símar eigi ekki síður rjett á sjer en þeir, er brtt. fjallar um, enda eru þeir allir ákveðnir lögum nr. 52 frá 1919.

Þá eru tvær brtt. frá háttv. 2. þm. G.-K. (BK). Sú fyrri er um 20000 kr. lánveitingarheimild handa Gerðahreppi. Samskonar upphæð er þegar komin inn í fjárlagafrv. fyrir árið 1924, en hjer er farið fram á jafnmikið á yfirstandandi ári.

Nefndin hefir ekki gert neinar till. í þessu efni; vill láta stjórnina hafa óbundnar hendur. Skildist mjer og á hæstv. atvrh. (KIJ), að engin vandræði myndu af því hljótast, þó að heimildin væri aðeins í fjárlögum mesta árs. Gæti það orðið hreppnum að gagni þegar á þessu ári. Hitt skal jeg ekki leggja neinn dóm á, hvort nauðsyn beri til að veita stjórninni 40 þús. kr. lánsheimild til hrepps þessa, en nefndin telur óþarfa að fara hærra en upp í 20 þús. að svo stöddu.

Annars getur hver maður sjeð, að til lítils muni vera að veita þessum hreppi 40 þús. kr. lán, því eins og hæstv. atvrh. (KIJ) tók fram, eru engar líkur til, að jafnlítill hreppur fái risið undir svo hárri skuld.

En verði þessi brtt. samþykt, þá vill nefndin þó láta þess getið, að hún lítur svo á, að stjórnin sje samt sem áður ekki skyld að veita meira en brýn þörf krefur.

Þá er hin brtt. frá sama háttv. þm. (BK), um endurgreiðslu á tekjuskatti til tveggja hlutafjelaga, Víðis og Ýmis í Hafnarfirði. Jeg geri ráð fyrir, að öllum háttv. þm. sje mál þetta kunnugt síðan í fyrra, er það var rætt í háttv. Nd. allítarlega. Hjer er ekki um það að ræða, að tekjuskattur hafi verið lagður á ólöglega, og byggja fjelögin ekki kröfu sína á því, enda þyrftu þau þá ekki að fara þessa leið, heldur dómstólaleiðina. Það, sem ber á milli, er, að aðrir skattgreiðendur hafi komist ljettara út af því að greiða skatt þennan, eða rjettara sagt, að önnur aðferð hafi verið notuð við álagningu skattsins annarsstaðar á landinu. Það er því ekki allskostar rjett hjá háttv. flm. þessarar brtt. (BK), að önnur togarafjelög hafi sloppið við skatt, heldur hafa hluthafarnir borgað skattinn hver í sínu lagi, eftir að ágóða var skift. Þetta mun hið rjetta í málinu og í samræmi við það, sem upplýstist í háttv. Nd. í fyrra.

Mætti það æra óstöðugan, ef gengið væri inn á þá braut, að gefa þeim eftir af tekjuskatti, sem þættust hafa orðið illa úti, þar sem vitanlegt er, að mismunandi aðferðir hafa verið hafðar í hinum ýmsu bæjarfjelögum, sýslum og hreppum við álagningu skattsins. Nefndin getur því ekki mælt með þessari brtt., en mun greiða henni mótatkvæði.

Þá er eftir að minnast á brtt. háttv. þm. Vestm. (KE).

Það er svo með þær, að enda þótt þær megi teljast rjettmætar, þá verður nefndin þó að halda við þá stefnu sína, að reyna að stemma stigu fyrir auknum fjárútlátum, og getur meiri hluti nefndarinnar því ekki aðhylst þær, hvorki till. um styrkinn til bryggjubygginganna nje hina, um styrkinn til viðgerðar á björgunarskipinu Þór.

Jeg held, að það sje ekki fleira, sem jeg hefi ástæðu til að minnast á.