07.05.1923
Efri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get verið þakklátur háttv. fjvn. fyrir það, að hún hefir tekið vel í tvær brtt. mínar.

Jeg vona, að utanfararstyrkurinn til læknisins á Vífilsstöðum fái góðan byr. Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um aðra utanfararstyrki, og því, að hæstv. forsrh. (SE) óskaði eftir, að stjórninni væri heimiluð fjárhæð til skiftingar í þessu skyni, þá verð jeg að segja það, að jeg tel þá styrki ekki samanberandi við þennan, því segja má, að þetta sje gert vegna lífs og heilsu landsmanna. En verði tekin upp fjárhæð í þessu skyni, þá skal jeg ekki hafa á móti því, að þessi upphæð falli saman við það, og má þá laga það við 3. umr.

Viðvíkjandi því, hvort heldur beri að styrkja mannflutningaeða vöruflutningabíla, þá álít jeg rjettast, að stjórnin ráði fram úr því atriði. Máske væri rjett að styrkja hvoratveggja.

Þá var því aðallega haldið fram gegn till. minni um unglingaskólann í Vík, að þetta mundi draga dilk á eftir sjer. En jeg álít nú, að Alþingi hafi þegar gengið spor í þá átt á þessu þingi, þar sem það hefir samþykt upphæð til alþýðuskóla, og hvort skólinn heitir alþýðuskóli eða unglingaskóli, er naumast nokkurt atriði. En það er mikil þörf á að veita þessa upphæð.

Þá er nefndin hlynt því, að Elísabet Jónsdóttir fái þennan 300 kr. styrk. Jeg hefi nú talað við þm. Árnesinga um þetta, og eru þeir samþykkir því, að þessi upphæð sje veitt einu sinni. Nái till. samþykki nú, þá má bæta því við til 3. umr., að þetta sje í eitt skifti fyrir öll.