09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Einar Árnason):

Það eru aðeins örfáar brtt., sem nefndin gerir.

Það fyrsta, er nefndin leggur til að breytt verði, er upphæðin til flóabátanna, Djúpbátsins og Breiðafjarðarbátsins, sem í frv. eru 10 þús. kr. til hvors. Nú hefir nefndin fengið upplýsingar um fjárhagsástæður þessara báta og fengið vitneskju um það, að hagur Djúpbátsins sje mun betri, og leggur því til, að styrkurinn til hans sje færður niður um 2000 kr. Auk þess vill nefndin setja það skilyrði, að fjelögunum, sem eru mjög illa stæð fjárhagslega, sjeu gefnar eftir upphæðir annarsstaðar frá, er nemi að minsta kosti jafnmiklu. Þá er uppbót til símafólksins breytt í sama horf og fjárveitinganefnd Nd. lagði til, en gekk ekki fram þar í deildinni. Það er og í samræmi við þá tillögu, er nefndin gerði um þetta efni við fjárlagafrumvarpið og samþykt var hjer í deildinni áðan. Það er um 9000 kr. lækkun frá því, sem í frv. stendur.

Þá álítur nefndin sanngjarnt, að Einari Jónssyni, kennara við stýrimannaskólann, verði bætt upp laun sín á þessu ári, á sama hátt og gert er ráð fyrir, að verði 1924.

Þá er 4. brtt., sem nefndin hefir gert, uppbót til Einars Sæmundsens skógarvarðar, 600 kr. Nefndinni fanst sanngjarnt að mæla með þessu, þar sem skógarverðirnir á Vöglum og Hallormsstað hafa ókeypis bústað. Er þetta í samræmi við það, enda sanngjarnt, þar sem hann verður að búa við rándýra húsaleigu hjer í Reykjavík.

Þá hefi jeg minst á brtt. nefndarinnar, en um þær brtt., sem komið hafa fram frá einstökum hv. þm., hefir nefndin ekki tekið afstöðu; henni hefir ekki unnist tími til þess, þar sem þeim var útbýtt nú í fundarbyrjun. Býst jeg þó við, að nefndin sje samþykk 1. brtt., 300 kr. styrk til dragferjuhalds á Blöndu, frá hv. 1. þm. Húnv. (GÓ), en annars sýna atkvæði hennar, hvernig hún lítur á þessar brtt.