09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki nema fátt eitt, sem jeg þarf að taka fram að þessu sinni, því að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hefir þegar svarað vel og rækilega þeim árásum, sem gerðar hafa verið á till. meiri hl. En það atriði í ræðu hæstv. fjrh. (MagnJ), þar sem hann var að tala um, að ekkjur yrðu hart úti eftir gildandi lögum, vildi jeg fara fáum orðum um, því að hann gat aðeins komist að þessari niðurstöðu með því að ganga út frá, að maðurinn legði ekkert í búið, og þá verður ekki annað sjeð en það sje fjárhagslegur ljettir að því, að hann fjelli frá, og þá er ekki von, að skatturinn minki. Hann talaði líka um, að hægt væri að jafna misrjettið milli einhleyps fólks og fjölskyldna með aukaútsvari. En jeg vil benda á, að lagabreytingar mun þurfa við til þess, og býst enda við, að sú lagabreyting mundi eiga erfitt uppdráttar. ef t. d. aukaútsvar ætti að vera helmingi hærra á einhleypu fólki í sveitum en annarsstaðar. Slík löggjöf mundi þykja æðikynleg. Hann gat þess, að aukaútsvar væri lagt á eftir öðrum mælikvarða en skatturinn. Það rjett í sveitum: en með því eyðilagði hann raun rjettri fyrir sjer það, sem hann áður hafði látið um mælt.

En benda má á, að hjer í Reykjavík er gert ráð fyrir, að líkum reglum verði fylgt um álagning tekjuskattsins og útsvarsins.

Þá sný jeg mjer að lokum með örfáum orðum að hv. frsm. minni hl. (ÞorlG). Hann var að biðja mig að vísa til sín þessu ódýra fólki, sem jeg hafði talað um. Þótt jeg hafi raunar enga ráðningaskrifstofu, er ekki nema velkomið, að jeg geri þetta, ef fyrir mjer verður eitthvað af slíku fólki. Og þá ætlar hann aftur á móti að ábyrgjast hverri vinnukonu 1000 kr. árstekjur og þar yfir, svo að hún verði skattskyld. Fleira þykir mjer ekki nauðsyn til bera að fara út í að sinni.

Mjer kemur það einnig nokkuð spanskt fyrir, þegar hv. 2. þm. Reykv. (JB) er að berjast á móti beinum sköttum. (JB: Nei). Jú, háttv. þm. er í rauninni að því og engu öðru, þar sem hann vill koma sem flestum undan skattinum með hækkun frádráttarins. En jeg veit ekki betur en að það sje á stefnuskrá flokks hans að auka beinu skattana. Sami háttv. þm. (JB) sagði einnig, að aðalatriði þessa máls væri skattstiginn og það væru breytingarnar á honum, sem ruglað gætu rjettarmeðvitund almennings í þessum efnum. En þetta er alveg rangt. Enginn maður leggur skattstigann á minnið, eða breytingar á honum, en önnur helstu atriði laganna, sem til grundvallar liggja, leggja margir á minnið, og þess vegna er hættara við því, að breytingar á þeim geti ruglað rjettarmeðvitundina, eins og bent er á áliti meiri hl. Viðvíkjandi breytinguni á þessum lögum yfirleitt vil jeg aðeins taka það fram, að sjálfsagt virðist og heppilegast, að þeir sjeu þar spurðir ráða, sem mest hafa fengist við framkvæmd laganna. Jeg get þessa hjer líka af því, að skattstjórinn í Reykjavík, sem sjálfsagt er þessu kunnugastur, hefir nú ekki verið spurður ráða, og ýmsar breytingar, sem hann mun telja nauðsynlegar, hafa ekki komið fram í stj.frv.