11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jakob Möller:

Jeg þarf engu við að bæta það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði um styrkinn til Gísla Sveinssonar. Hefi hann áður verið samþyktur hjer í deildinni með yfirgnæfandi meirihluta, og hún látið þannig ótvírætt vilja sinn í ljós. Það var aldrei meiningin, að af þessari upphæð yrði tekið til annara, og segi jeg það ekki til að spilla fyrir þeim öðrum, sem samskonar styrks hafa leitað.

Þá á jeg aðra brtt., undir tölulið VI á sama þskj., þar sem farið er fram á lítinn styrk handa Blaðamannafjelagi Íslands, til að senda fulltrúa á fund í Svíþjóð. Þessi styrkur hefir raunar verið feldur áður, en jeg geri ráð fyrir, að það hafi verið gert vegna þess, að feldir voru aðrir styrkir, sem fóru í líka átt, en nú hafa þeir flestir verið samþyktir, og vænti jeg því, að hv. deild láti þennan styrk verða þeim samferða.

Þá kem jeg að 3. brtt., um uppbót til símastarfsfólksins. Jeg býst við, að frv. þurfi aftur að ganga til Ed., svo það þarf ekki að fæla menn frá að greiða atkvæði með því enn á ný. Veit jeg, að allir muni skilja, að full þörf sje á þessu nú, hvernig svo sem ástatt verður 1924. En svo virðist, sem hjer í þinginu sje einhverskonar metingur um laun starfsmanna ríkisins, þó hann muni alls ekki eiga sjer stað þeirra á meðal utan þings. Það er ljóst, að till. þessi á erfitt uppdráttar í Ed., en jeg vona, að hv. Nd., sem er skipuð tómum karlmönnum, reynist kvenfólkinu betur í þessu máli en fulltrúi kvenna reyndist því í Ed.

Eina brtt. enn, á þskj. 623, III, vildi jeg minnast á fám orðum. Hún er um að lækkaður verði styrkurinn til Þórs. Mjer þykir leitt, að þessi tillaga skuli komin fram og vænti þess, að deildin felli hana og vilji veita því fyrirtæki allan stuðning. Svo sem kunnugt er, þá á það næsta erfitt uppdráttar og hefir orðið fyrir tilfinnanlegu áfalli, og því engu síður vert að styðja það heldur en flóabátana, sem veittur hefir verið fjárstyrkur, sökum þess, hve illa þeir hafa borið sig. Og þó þetta fyrirtæki sje einstakra manna eign, þá er það þó í eðli sínu nytsemdarfyrirtæki allri alþjóð og hefir bæði haft með höndum björgunartilraunir og strandvarnir, og hefir það orðið til að leiða það í ljós, sem afarmikilsvert var að fá fulla vissu fyrir, að strandvarnirnar eru best komnar í höndum Íslenskra skipa. Er það og kunnugt, að síðan Þór kom, hefir enginn bátur farist við Vestmannaeyjar, en áður venjulegast 1–3 á hverri vertíð. Geta því óteljandi mannslíf verið undir því komin, hvort fyrirtækinu er veitt sú hjálp, sem það þarfnast, eða það verður að gefast upp.