11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

139. mál, fjáraukalög 1923

Benedikt Sveinsson:

Jeg flyt eina brtt. á þskj. 621, og er hún fram komin fyrir tilmæli Einars prests Friðgeirssonar á Borg á Mýrum. Hefir hann skrifað erindi til þingsins, þar sem hann fer fram á, að ríkið kaupi af sjer staðarhúsin á Borg, eða að honum gefist ella kostur á að kaupa jörðina. Nú eru 35 ár síðan hann settist þar að, og hefir hann bygt þar stórmannlega, en hús voru þar nær engin, er hann tók við jörðinni. En hann er enginn auðkýfingur og má illa við því að rífa húsin, en annars á hann ekki úrkostar, ef ríkið vill ekki kaupa þau af honum. En nú er það hvorttveggja, að það er viðurkent, að vel sómi að forn og fræg höfðingjasetur, slík sem Borg er, sjeu vel bygð, og í annan stað ekki skylda prestsins, heldur ríkisins, að húsa staðinn, þá er það sýnilegt, að ríkinu liggi það næst að kaupa húsin. Þá býst jeg og við, að mönnum finnist kaupverðið, sem ráðgert er að nemi 10–12 þús. kr., mjög sanngjarnt, enda mundi hæstv. stjórn trúandi til þess að leita hagfeldra samninga um verðið og greiðslu þess. Vænti jeg, að ekki sje þörf að tala frekar fyrir þessu.