11.05.1923
Neðri deild: 61. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Brtt. nefndarinnar hefir ekki mikið verið mótmælt, og get jeg því verið stuttorður. Það var aðallega hv. 1. þm. Rang. (GunnS), sem varð til þess, þegar hann mótmælti lækkuninni á styrknum til bifreiðaferða. Jeg get búist við, að til lítils sje fyrir mig að andmæla háttv. þm., eftir því, sem mjer virðist honum ganga nú undir umræðunum, þar sem hann gengur hjer manna á milli í liðsbón. En þó að samgöngumálanefnd hafi lagt það til á bak við þingið, að styrkurinn til bátaferða austur á Eyrarbakka falli niður, getur fjvn. ekki tekið það til greina. Það er ekki lögfest með því. Stjórnin á að skifta styrknum og getur farið eftir sínum geðþótta: býst jeg við, að hæstv. stjórn hafi rekið sig á það, að tillögur háttv. samgmn. sjeu ekki svo heppilegar fyrir alla landshluta, að ástæða sje til að fylgja þeim undantekningarlaust. Þegar litið er á þetta, tel jeg ekki ósanngjarnt, að fjvn. haldi sjer við það, sem áður hefir verið samþykt í þessari háttv. deild, enda býst jeg við, að háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) muni nú vilja láta bátastyrkinn halda sjer eftir sem áður. En jeg vil lýsa yfir sem frsm., að það var aldrei tilætlunin að veita styrk til þessara bifreiðaferða á kostnað sjóferðanna. Skil jeg ekki í því, að háttv. þm. skuli vilja vinna það til að taka fje frá Árnesingum til þess að styrkja bifreiðaferðir austur í Rangárvallasýslu.