12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

139. mál, fjáraukalög 1923

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á 3 brtt. á þskj. 628. Fyrsta brtt., við 4. gr. 1, er um bifreiðaferðir. Hv. Nd. lækkaði styrkinn, og hefir hv. fjvn. Ed. fallist á þá lækkun, og það hefir verið sett inn í liðinn, að það sje bæði til mannflutninga og tilrauna til ódýrari vöruflutninga. Hv. fjvn. Ed. er það ljóst, að þetta er of lítil upphæð til þess, að henni verði skift, en hún hefir hins vegar eigi treyst sjer til að taka fyrri upphæðina upp aftur, og því hefi jeg orðið til þess.

Þá er það 2. brtt., á sama þskj., til þess að kaupa „diathermi“-áhald, alt að 3500 kr. Það kom fram í hv. Nd. till. um 4000 kr. fjárveitingu í þessu skyni og var hún samþykt með litlum atkvæðamun. Hv. fjvn. þessarar deildar hefir felt niður þessa fjárveitingu með öllu. Jeg hefi töluvert kynt mjer þetta mál og álít jeg eigi lítils virði, að áhald þetta fáist, því að það er meðal annars talið nauðsynlegt fyrir landsspítalann, þegar hann tekur til starfa. Áhaldið er aðallega notað til þess að gegnhita vissa líkamshluta með rafmagnshita, en að vísu er eigi hættulaust með það að fara. Áhaldið er talið bráðnauðsynlegt við lækningu á mörgum sjúkdómum, sjerstaklega liðagigt, sem er versti sjúkdómurinn á okkar kalda landi og einna örðugastur viðureignar öllum læknum. Álít jeg, að nauðsynlegt sje að taka ákvörðun um það, hvort fá eigi áhaldið nú þegar eða seinna. Í rentutap það, sem af því leiddi að fá áhaldið strax, er tæplega horfandi. Jeg hefi kynt mjer áhald þetta eftir bók læknis eins, er álítur það mjög þýðingarmikið. Jeg er því þeirrar skoðunar, að best sje að kaupa áhaldið strax. Hvað hættuna snertir, sem það hefir í för með sjer, þá er því til að svara, að svo er um fleiri lækningaáhöld, ef rangt er með þau farið, t. d. Röntgengeislana, og sama er að segja um mörg lyf. Hættan er því í sjálfu sjer engin mótbára gegn kaupunum. Það þarf vitanlega þekkingu á áhaldi þessu, eins og öðrum lækningaáhöldum, til þess að rjett sje með það farið.

Hvað snertir 3. brtt. á þskj. 628, við 6. gr. 10, þá er hún aðeins breyting á orðalagi. Jeg gat þess þegar jeg flutti till. við 3. umr. hjer í þessari háttv. deild, og hafði það eftir sögukennara háskólans, að það væri samkomulag, að hann færi á fundinn í Gautaborg. En seinna kom þjóðskjalavörðurinn til sögunnar, sem líka vildi fara. Sögukennarinn hefir því beðið mig að breyta liðnum eins og jeg hefi gert með þessari till. minni. Jeg skal geta þess, að allar líkur eru til þess, að styrkur þessi verði eigi notaður.