09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg verð að tala aftur, til þess að bera ofurlítið af mjer það., sem ranglega hefir verið á mig borið. Hv. þm. Ísaf. (JAJ) sagði, að jeg hefði sagt, að allir hefðu 1000 kr. tekjur eða meira. En það sagði jeg ekki, heldur hitt, að allir, sem á annað borð vinna fyrir sjer, hefðu þetta, en hinir væru í rauninni ómagar að nokkru leyti, og þess vegna ekki ástæða til að skattleggja þá. Annars var aðalatriðið í mótmælum mínum í fyrri ræðunni fólgið í því, að jeg sýndi fram á það skýrt og greinilega, að ríkissjóðurinn gæti ekki þolað það að missa svo miklar tekjur, sem óhjákvæmilega yrði afleiðingin af till. hv. meiri hluta. Það var þess vegna algerður óþarfi af háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) að vera að snúa út úr þessum orðum mínum. Hann sagði einnig, að jeg hefði ekki komið með eitt einasta dæmi mínu máli til sönnunar. En þetta er ósatt: jeg kom með dæmi þá, og jeg skal koma með dæmi nú í viðbót. Maður, sem hefir 25 þús. kr. tekjur, á eftir till. stjórnarinnar að greiða 2670 kr., en ef útsvarið er dregið frá, sem ætla má honum, þarf hann aðeins að borga 1960 kr. Og ef svona verður um marga, er bersýnilegt, að ríkissjóð verður ekki lengi að muna alltilfinnanlega um þetta.

Annars nenni jeg ekki að vera að eltast við alla útúrsnúninga háttv. þingmanna, sem þeir hafa verið að reyna að gera á fyrri ræðu minni og þeim staðreynduni, sem þar voru bornar fram. Jeg get þó ekki stilt mig um að svara háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), sem reyndi vísvitandi að snúa út úr því, sem jeg sagði, með því að hann sagði, að það gæti aldrei verið rjett, að sá ætti erfiðara, sem hefir 2000 kr. tekjur og borgar ekki skatt, heldur en sá, sem hefði t. d. 25000 kr. tekjur og yrði því að borga nokkurn skatt. En þetta er útúrsnúningur einn, sem ekki getur orðið til þess að bjarga málstað hans nje rýra minn að nokkru leyti, því þó segja megi, að hjer geri sá ríki það, sem hinn gerir ekki, þá verður því ekki neitað, að það eru erfiðari kjör t. d. fátæks barnamanns, sem ekki er skattskyldur, heldur en auðmanns, þótt hann verði að gjalda eitthvað til almennra þarfa. Og hvað svo sem um þetta verður til eða frá, þá hefi jeg ekki viljað annað í þessu máli en það, sem jeg hefi haldið að verða mundi fyrir bestu, og hvort sem till. mínar og rök verða nokkurs metin eða ekki, þá er jeg glaður yfir því að hafa varið rjettan málstað.