12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

139. mál, fjáraukalög 1923

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að minnast lítið eitt á brtt. þá, sem hv. fjvn. Nd. ber nú fram, um það að veita skraddara einum hjer í bænum, Reinhold Andersson, lán til þess að setja upp stofu, þar sem saumaður sje landsforði — en svo kalla jes „lager‘‘ — af karlmannafatnaði úr íslenskum dúkum. Er þetta hin eina rjetta leið til þess að koma í framkvæmd þeirri hugsjón, sem lengi hefir fyrir þessu þingi vakað, að efla ullariðnað landsins og bæta úr hinum miklu vankvæðum, sem nú eru á markaði fyrir íslenskar afurðir, og þá hjer ullina.

Ef það tækist að gera dúkana að verslunarvöru í landinu, væri mikið unnið í gjaldeyrissparnaði. Jeg hygg, að nú sje erlendur fatnaður keyptur fyrir 3/4–1 miljón króna á ári. Jeg geri ráð fyrir, að eftir svo sem 4–5 ár mundi gjaldeyrissparnaðurinn vera orðinn um miljón og markaður mundi vera kominn fyrir dúka úr dúkaverksmiðjum vorum, Gefjuni og Álafossi. Mundi þeim þá vaxa fiskur um hrygg og þær geta fjölgað vefstólum sínum og bætt þá. Væri svo skynsamlega haldið áfram, mundu bændur hafa góðan markað fyrir ull sína í landinu og þeir ganga í góðum íslenskum fötum, í stað þess að nota erlent afhrak.

Jeg skal geta þess, að það er ekki sakir kunningsskapar, að jeg flyt þetta. Þessi maður á hugmyndina, og því hefi jeg bundið hans nafn við lánveitinguna. Hann hefir látið þess getið við mig, að ef stjórninni þætti það tryggilegra, þá er hann fús til þess að taka góðan verslunarmann í lið með sjer. Væri auðvelt fyrir stjórnina að sjá um, að sá maður yrði vel valinn, en allir vita, að Andersson er ágætur skraddari. Jeg vænti þess nú fastlega, að þessi stefna, að skapa bændum markað hjer í landinu fyrir ull sína og spara gjaldeyri. verði ofan á í þinginu. Þessi lánveiting hefir hvað eftir annað verið samþykt í Nd., og voru með henni flestir þeir, sem taldir eru íhaldssamastir um fjárveitingar. Þeir sáu, hvað hjer var verið að gera, en sökum misskilnings hefir þetta verið felt í Ed. Jeg trúi nú ekki öðru en Alþingi sjái nú sóma sinn og samþykki þetta nú eftir alla þessa hrakninga.