12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

139. mál, fjáraukalög 1923

Jónas Jónsson:

Í forföllum frsm. fjvn. Ed. (EA) ætla jeg að segja nokkur orð frá sjónarmiði nefndarinnar viðvíkjandi brtt. þeim, er hjer liggja fyrir. 1. brtt. er gamla þrætuefnið viðvíkjandi símafólkinu. Það hefir oft verið tekið fram, að enginn þeirra, sem greiddi atkvæði á móti þessari upphæð, gerði það af því, að þeir viðurkendu ekki, að laun símafólksins væru lág. En sama máli gegnir um allan þorra starfsmanna landsins. Ein ástæða til þess að fjvn. Ed. gat ekki hallast að hærri upphæðinni, var sú, að hún áleit, að ef farið væri að breyta launakjörum starfsmanna landsins, þá væri erfitt að takmarka sig við lítinn flokk.

Þá skal jeg ekki segja mikið um 2. brtt. Hún hefir verið skýrð af háttv. 6. landsk. þm. (IHB), sem mun af leikmönnum hjer hafa mest vit á því máli. Jeg get bætt því við, að þær tillögur, sem eru bornar fram á síðustu stundu, ættu að falla. Því aðeins koma þær seint, að lítil von er til, að þær þoli gagnrýning. Upphæðin er ekki aðalþröskuldur í þessu máli, heldur það, að engin trygging er fyrir því, að nokkur maður kunni með þetta verkfæri að fara hjer. Þingið hefir sýnt, að það er ekki sýtingssamt um fjárveitingar, þar sem næg sjerþekking var fyrir hendi, svo sem Röntgenfjárveitingin á þessu þingi ber vitni um.

Þá kem jeg að öðru þrætuepli, dúkunum hans Anderssons. Jeg er fyllilega sammála háttv. þm. Dala. (BJ), að nauðsyn sje á því að styðja ullariðnaðinn, en jeg er ekki jafnviss um það, að þetta sje rjetta leiðin. Fyrst og fremst er það, að þessi upphæð er of lítil, ef reka ætti þetta fyrirtæki í stórum stíl. Þá er annað, að það er ekki rjett hjá háttv. þm. Dala. (BJ), að þeir dúkar, sem nú eru unnir, gangi ekki út. Það er mikil eftirspurn eftir Gefjunardúkunum, enda eru þeir betri, því að sú verksmiðja hefir betri tæki. Það er ekkert til fyrirstöðu að auka sölu þeirra, ef fólk álítur, að þeir þoli samanburð við erlenda dúka. En því miður munu föt úr íslenskum dúkum vera dýrari en sú tegund erlends fatnaðar, sem kept er við.