12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. fjvn. Nd. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf litlu sem engu að svara fyrir hönd fjvn. Nd., því bæði er búið að því áður og það, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) tók síðast fram, var meira beint til hv. þm. Dala. (BJ) en nefndarinnar. En mjer finst jeg ekki geta setið þegjandi hjá þeim umr., sem orðið hafa hjer un „diathermi“-áhaldið og læknastjettina yfirleitt í því sambandi. Því í raun og veru er það vantraust til stjettarinnar, sem hjer hefir verið borið fram, þó ekki sje það látið heita svo, þar sem efast er um það, að þeir geti farið með þetta verkfæri, eða beinlínis sagt, að þeir sjeu að mæla hjer með hættulegu „tóli“, sem búið er að gera hjer óttalegt í augum manna að ástæðulausu. Sannleikurinn mun nú vera sá, að íslensku, og þá ekki síst reykvísku læknarnir standa í engu að baki erlendum læknum, og ýmsar stofnanir þeirra hafa þegar fengið gott orð á sig. Og um trygginguna fyrir meðferð þessa áhalds er í rauninni nóg að vísa til læknadeildarinnar, því sennilega væna menn hana ekki um það, að hún sje að fara með svik eða muni mæla með því, að þekkingarlausum klaufa verði fengin yfirráð þessa verkfæris. Mjer er líka kunnugt um að hjer er til maður, sem kynt hefir sjer þetta verkfæri sjerstaklega. Viðvíkjandi endingu þess skal jeg segja það eitt það endist áreiðanlega okkar tíð. Auðvitað geta þó einstakir hlutar bilað í þessu verkfæri, eins og í öðrum rafmagnsáhöld, og er ekki meira tiltökumál um þetta en önnur áhöld. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að tala um það, að till. væri seint fram komin, og mundi það vera af því, að þá væri búist við minni „kritik“ frá því. Jæja — jeg er nú viss um það, að þó þessi hv. þm. og aðrir þm. hefðu setið yfir verkfærinu alt þingið, hefðu þeir ekki getað dæmt meira um það en þeir geta nú. Hann verður því að fara eftir áliti sjerfræðinganna aðallega, í þessu tilfelli læknadeildarinnar. Jeg vona svo að endingu, að hv. þm. hafi ekki orðið svo taugaveiklaðir út af útmálun hættunnar við þetta verkfæri, að þeir samþykki ekki veitinguna, enda er nóg búið að ræða um þetta, ekki stærra mál.