09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Kristjánsson:

Hv. frsm. minnihlutans (ÞorlG) og háttv. 2. þm. Reykv. (JB) hafa að ýmsu leyti tekið af mjer ómakið að svara ýmsu því, sem jeg hafði annars ætlað mjer. Jeg skal því aðeins hverfa lítillega að því, sem frá var horfið í gær, þar sem háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) og háttv. 3. þm. sama kjördæmis (JÞ) vildu bera mjer það á brýn, að reikningsskekkjur hefðu átt sjer stað í samanburði mínum á skattstigunum. Jeg hefi ekki getað fundið þessar villur, og skal því nú sýna fram á það í annað sinni, að jeg hafði rjett að mæla, ef það mætti verða til, þess að koma þessum hv. þingmönnum inn á rjetta braut. Þar sem jeg hjelt því fram um till. á þskj. 67, að hún færi beinlínis í þá átt að lækka skatt á hærri skattgreiðendum, þá er þetta svo augljóst, að jafnvel háttv. flm. sjálfur mun ekki reyna til að mótmæla því. Jeg skal aðeins benda á eitt dæmi. Eftir till. hans á að greiða 21185 kr. af 150 þús. kr. tekjum, en 35500 kr. eftir skattstiga stj. frv. (JÞ): En hver er skatturinn nú. Þetta er spurning alveg út á þekju og kemur málinu ekki við, því hjer er aðeins að ræða um samanburð á þeim till., sem nú eru fram komnar og nú liggja fyrir. Þá skal jeg næst snúa mjer að því, að sagt var, að jeg hefði ekki tekið tillit til lögleyfðs frádráttar í fyrri samanburði mínum. Þetta er alveg rangt, og sennilega borið fram móti betri vitund. Þó að það sje leiðinlegt að þurfa að endurtaka það, sem áður er sannað, verð jeg þó að gera það nú. Af 3000 kr. í stj.frv. á að greiða 20 kr., en eftir till. meiri hl., að frádregnum frádrætti. 24 kr.; af 4000 kr. í stj.frv. á að greiða 40 kr., en eftir till. meiri hl. 49 kr.; af 5000 kr. 70 kr. eftir stj.frv. en 82 eftir till. meiri hl.; af 6000 kr. 110 kr. eftir stj.frv., en 124 kr. eftir till. meiri hl.; og skal jeg ekki þreyta hv. deild á lengri lestri í þessa átt, þótt jeg hafi skrifað upp miklu meira, sem alt fer í sömu átt. (JakM: En samanburðurinn í gær er alveg sama vitleysan fyrir þessu). Þetta fer alveg í sömu átt, þangað til kemur upp í 50 þús. kr., þá snýst blaðið alveg við; þá fer að lækka á hæstu gjaldendunum. Þetta er stefnan, svo fögur sem hún er. Annars mótmæli jeg öllum gífuryrðum og framítökum háttv. 1. þm. Reykvíkinga (JakM), því þetta, sem jeg segi, er alt rjett. (JakM: Það er tóm vitleysa). Jeg veit ekki, hvað það er, sem þessi hv. þm. ekki leyfir sjer hjer í deildinni, því þetta athæfi er blátt áfram ekki sæmilegt, að neita svo talandi tölum, sem jeg hefi hjer borið fram. En það er sorglegt til þess að vita, ef þingmaðurinn er kominn á það siðferðisstig, að hann finnur ekki til þess, hversu ósæmilega hann hegðar sjer. Slíkt getur varla komið fyrir annan en þann, sem varið hefir mestum hluta æfi sinnar til þess að fara með blekkingar í ræðu og riti.

Jafnvel þótt ástæða hefði verið til að viðhafa sterkari orð um framkomu þessa þingmanns. læt jeg þetta nægja að þessu sinni.