12.05.1923
Sameinað þing: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

139. mál, fjáraukalög 1923

Magnús Jónsson:

Mjer finst óþarfi að vera að tala um nokkra taugaveiklun þingmanna í sambandi við þetta „diathermi“-mál. Jeg sje heldur ekki, að hjer sje um að ræða neitt traust eða vantraust á læknastjettinni eða hún sje einhver helgidómur, sem ekki megi anda á. Jeg fyrir mitt leyti gef henni hvorki traust nje vantraust í heild. Sumum læknum treysti jeg og öðrum ekki, og svo mun vera um allan þorra manna.

Eftir því sem hættan eykst, vanda menn valið á læknunum. eða með öðrum orðum gefa þeim trausts eða vantraustsyfirlýsingu. Og af hverju myndi það vera nema þessu, sem allir með alvarlega sjúkdóma hrúgast á hendur örfárra manna? Hvað mig snertir, þá tók jeg þetta upp á „autoritet“ læknanna, sem undir meðmælin höfðu skrifað, og hugði, að hjer væri um áhald að ræða, sem ekki fylgdi neitt varhugavert. En þó að þessir ágætu læknar hafi skrifað undir meðmælin, þá er ekkert, sem bendir á, að þeir ætli sjálfir að fara með það. — Þegar Röntgentæki komu hingað, var það kunnugt, að þau eru tvíeggjað sverð, eins og þetta „diathermi“-áhald virðist vera. En þá var líka sjeð um, að með þau færi sjerfræðingur, sem menn gátu fulltreyst. Og að fara nú að kaupa handa fyrirhuguðum landsspítala slíkt tæki, tel jeg hreina fjarstæðu. Það verður vissulega bæði bilað og komið úr móð löngu áður en landsspítalinn kemur. Og í sjálfu sjer er hugmyndin fjarstæða, og ekki heldur ætluð til annars en veiða málinu fylgi.