11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

115. mál, verslun með smjörlíki

Jón Þorláksson:

Jeg vil leyfa mjer að beina þeim tilmælum til háttv. landbn. að hún leiti umsagnar verslunarráðsins að því er snertir ákvæði þessa frv. um verslun með smjörlíki og svipaðar vörur. Af greinargerðinni verður ekki sjeð, að neinir sjerstaklega verslunarfróðir menn hafi fjallað um frv. Mjer virðist vera í því ýms ákvæði, sem gætu valdið verulegum óþægindum við verslun með vörutegundir þessar, án þess að hafa að marki þýðingu til þess að tryggja hagsmuni kaupenda. Meðal annars eru nokkur ákvæði, er mjer virðast þess eðlis, að ekki ættu að standa í lögum, heldur í reglugerð, sem auðveldlega mætti breyta, eftir því hvernig verslunarástandið er á hverjum tíma. Jeg vildi óska, að háttv. frsm. (BH) gæti gefið mjer þegar við þessa umræðu vitneskju um, hvort hv. landbn vill verða við þessum tilmælum mínum.