21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

115. mál, verslun með smjörlíki

Magnús Jónsson:

Háttv. frsm (BH) brá á sig minna skilningsgervi en hann hefir, er hann þóttist ekki skilja þá afstöðu mína, að jeg ætlaði að greiða atkv. með brtt., en svo á móti gr. Þetta er algeng aðferð, þegar maður vill ekki hafa einhverja grein, en kýs hana þó heldur breytta en óbreytta.

Um vörusvikin stendur það óhrakið, sem jeg sagði. Ef einhver vill svíkja smjör, með því að blanda það smjörlíki, þá er sá erfiðleikinn að afla smjörlíkisins minstur, og þessi ákvæði 5. gr. því algagnslaus. Það sanna í þessu er það, að menn kaupa alveg eins vöruna, þótt smjör og smjörlíki sje framleitt á sama stað. Menn spyrja vöruna sjálfa um gæði hennar og annað ekki.

Grein þessi er gagnslaus, en skaðleg. Er gott að geta notað mjólkurafganginn frá smjörbúinu til smjörlíkisgerðar.