10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

114. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Frumvarp þetta er komið frá hv. Ed. og var borið þar fram af fjhn. í samráði við stjórnina. Orsökin var sú, að ekki þótti enn tímabært að gera endanlegt skipulag á um seðlaútgáfu í landinu. Þótti rjettara að láta núverandi millibilsákvæði heldur standa eitt árið enn, fremur en að ákveða nú endanlegt skipulag, sem svo kanske þyrfti, fyrir rás viðburðanna, að laga til þegar á næsta þingi. Get jeg vel fallist á þetta, þó jeg hefði raunar tilbúið frumvarp, sem jeg býst við, að komi til að standa sem endanlegt skipulag í öllum aðalatriðum. En sem sagt get jeg fallist á að bíða eitt árið enn, og vona því, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, gangi greiðlega gegnum háttv. deild og að því verði, að aflokinni umræðunni, vísað til fjárhagsnefndar, en það er samsvarandi nefnd, sem hafði málið til meðferðar í hv. Ed.