05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Á síðasta þingi var samþykt þingsályktun um skipun búnaðarmála. Stjórnin tók hana til greina og sendi Búnaðarfjelagi Íslands með ósk um, að það gerði till. um þetta mál og ljeti stjórninni í tje aðstoð sína í þessu. Þetta hefir Búnaðarfjelag Íslands gert, og er frv. það, sem hjer liggur fyrir, árangur af því starfi. Búnaðarfjelagið hefir sýnt fram á það í greinargerð við frv., hversu þýðingarmikið það væri, að koma þessum þætti búnaðarmálanna í það horf, sem frv. fer fram á, og hefir í því falli gert marga og merkilega útreikninga og áætlanir um það, hversu miklum gerbreytingum ræktunarmálin gætu tekið, sem frv. fjallar um. — Landbúnaðarnefndin hefir svo vandlega yfirfarið þetta frv. og flutt það inn í þingið. En þessi flutningur hennar á frv. og fylgi hennar með því í háttv. deild er bundinn því skilyrði, að Búnaðarfjelag Íslands geri þá breytingu á lögum sínum, að atvinnumálaráðuneytið skipi tvo menn í stjórn þess samkvæmt. tillögum landbúnaðarnefnda Alþingis. Byggir nefndin skilyrði sitt á því, að þegar stóraukið fjárframlag er veitt úr ríkissjóði, sje sjálfsagt, að atvinnumálaráðuneytið fái þennan íhlutunarrjett um meðferð þess, jafnframt því sem yfirstjórn og ábyrgð þessara mála færist yfir á atvinnumálaráðherrann.

Það er öllum ljós nauðsyn þess að koma búnaðarmálum vorum í fast horf. Þetta frv. má heita að sje fyrsta takið í þá átt á þessum málum. Alt, sem gert hefir verið áður, hafa verið stefnulitlar tilraunir, auðvitað meira og minna nærri því rjetta, en allar þróttlausar að því leyti, að þær hefir vantað undirstöðuna, þá undirstöðu sem öll jarðræktar- og búnaðarmál þurfi að byggjast á, sem sje: sem næst vísindalega nákvæmni, bygða á okkar staðháttu. Ýmislegt, sem gert hefir verið, hefir því svarað neitandi til þeirra áætlana og hagsbóta, sem það átti að vinna. Við höfum því dregist aftur úr.

Við höfum sjeð hinum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar fleygja fram. Nýtísku útbúnaður hefir verið innleiddur til sjósókna, því hinn sami útbúnaður á víðast eða hvarvetna við til að plægja hafið. Í þessari grein hefir líka áræðið verið meira. Þessi óljósa stórfengsvon, sem alstaðar seiðir til sókna, hefir orðið drjúg lyftistöng til umbóta og framfara. Þar hafa öll skilyrði verið betri. Peningastofnanir landsins hafa staðið opnar þessum atvinnuvegi. Og þó að sumstaðar hafi illa farið á þessum meinlætatímum, er þó ekki annað hægt að segja en að rjett hafi verið af stað farið, hefði hóf fylgt með.

Alt öðru máli er að gegna um landbúnaðinn. Umbæturnar eru seinfærar. En það er eins örugt að leggja peninga í þær eins og hvern tryggan sparisjóð. Vextirnir eru vissir, ef rjett er byrjað. En það þarf að bíða eftir vöxtunum. Og einmitt það, hve landbúnaðurinn krefur langra lána, eða lána til langs tíma, til stórumbóta, veldur því, að það má heita svo, að allar peningalindir þjóðarinnar hafi verið honum lokaðar. Einyrkjarnir úti um land, sem staðið hafa með pál og skóflu til þess að yrkja jörðina, hafa ekki verið álitlegir skuldunautar eða lánþegar bankanna Það eru oft lítil dagsverkin og seint að vinnast til álitlegrar eftirtekju. En dagsverkin hverfa ekki. Þau bera ávöxt og vitna um það kynslóð fram af kynslóð, að með þeim er því lífsfræi sáð, sem verndað hefir þjóðerni og menningu landsmanna. Landbúnaðurinn er því nokkurskonar þjóðaröryggi, sem verður að varðveita með öruggri trú á framfarir hans, En það verður að veita þangað afli til þess, sem gera þarf. Tímarnir krefjast, að ekki sje lengur horft á það vitandi vits, að sá mikli auður, sem liggur í íslenskri mold eða íslenskum jarðvegi, sje ekki kallaður fram í þjónustu þjóðarinnar, og það verður að gerast með meiri framlögum af almannafje en verið hefir, og örva þannig eindregrið til framfara í ræktun landsins.

Þetta jarðræktarfrv. er aðeins einn þátturinn af mörgum í okkar landbúnaði. Allir þessir þættir hafa verið mestmegnis skipulagslausir, en hjer er byrjað á að setja þessum fast skipulag; og þetta skipulag liggur í því, að ákveðinn styrkur er ætlaður úr ríkissjóði til túngræðslu, eða jarðræktar, haughúsagerðar og garðræktar, þó með þeim skilyrðum, að hver, sem hans nýtur, verður að leggja fram mikla vinnu fyrst, eða svo jeg taki það ákveðnar fram, að til þess að fá 1/4 kostnaðar við túngræðslu eða túnsljettun, verður fyrst að vinna að þessu verki 10 dagsverk fyrir hvern verkfæran mann á hverju býli, sem enginn styrkur fæst fyrir. Og til þess að sýna fram á, að hjer er ekki verið að veita fje, nema beinlínis til aukinnar ræktunar, fram yfir það, sem verið hefir, þá skal jeg taka það fram, að árið 1920 eru unnin 82 þús. dagsverk að jarðabótum á öllu landinu. Af þessu voru í túnasljettum 126 ha., og sje ha. gerður um 200 dagsverk, sem vanalegt er, verður þetta alls 25200 dagsverk, eða tæplega 1/3 af allri dagsverkatölunni. Nú má gera ráð fyrir því, að þessi túnasljettun hafi verið gerð á að minsta kosti 1500 býlum, og ef tveir verkfærir menn hefðu verið að meðaltali á býli, með 10 dagsverka skylduvinnu hver, þá verða það 30 þúsund dagsverk, eða 5 þúsund dagsverkum meira en unnið var 1920. Hjer er því auðsætt, að menn verða að vinna fyrst eins mikið og þeir hafa gert, áður en þeir fá styrk, en styrkurinn er líka meiri fyrir það, sem fram yfir er.

Hve mikil útgjöld ríkissjóðs kynnu að verða eftir þessu frv., verður ekki sagt með neinni vissu; en sjálfsagt er að gera ráð fyrir, að ræktunin yxi talsvert, enda næðist ella ekki tilgangurinn. Ef dagsverkum fjölgaði um þriðjung, eða yrðu um 120 þúsund, mundi láta nærri, að á 40 þúsund dagsverk yrði greiddur styrkur, og áætli maður dagsverkið á 5–6 kr., þá yrðu það 50–60 þús. kr., og því minna, sem dagsverkin yrðu ódýrari. Hækkaði dagsverkatalan um helming, yrði styrkurinn 100–120 þúsund kr.

Nú er aðgætandi, að í fjárlögunum hefir ætíð verið nokkur styrkur til búnaðarfjelaga, sem vitanlega fjelli niður.

Hefir þessi styrkur oft verið um 30 þúsund krónur, og í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar nú er gert ráð fyrir 1.50 kr. á hvert dagsverk, sem mundi gera um 120 þúsund krónur, þó engin jarðræktaraukning yrði. En þar sem aðeins 20 þúsund krónur eru settar í frv. í þessu skyni, hlýtur það að vera prentvilla.

Það eru því ekki líkur til, að útgjöld ríkissjóðs aukist við samþykt þessa frv. fram yfir það, sem þau hefðu orðið eftir tillögum Búnaðarfjelagsins til stjórnarinnar og skilyrðum þeim, sem eru í fjárlagafrv. En það, sem vinst hjer fram yfir, það er hreinn ræktunarauki, sem nemur því, að við gerum á einu ári það, sem við hefðum gert á tveimur. Og þó að dagsverkatalan ykist meira, og þar af leiðandi útgjöld ríkissjóðs, þá verður það að teljast gott og svara til tilgangsins. Engum manni dylst það nú, að eftir kringumstæðum bændastjettarinnar og lánsstofnunum þeim, er hún hefir að grípa til, þá er henni algerlega um megn að gera nokkuð að jarðrækt, svo um muni, nema ríkissjóður hlaupi undir baggann og leggi fram nokkurt fje.

Þessi leið, sem hjer er farin, er sniðin eftir Norðmönnum. Þeir hafa síðastliðin 3 ár styrkt jarðræktina að einum fjórða úr ríkissjóði, og hafi sveitirnar líka lagt fram fje, þá að einum þriðja. Telja þeir þetta það besta, er þeir hafa tekið upp í þeim efnum.

Svipað er þetta norðan til í Svíþjóð, Sýnir þetta, að þar sem jarðræktarskilyrðin eru erfið, eins og hjá okkur, þykir óumflýjanlegt, að ríkissjóður leggi fje fram, auk þess sem að þessu er stutt með hagfeldum lánum. Og ef til þess kæmi, að landbúnaðurinn gæti einnig notið þeirra hjer, má segja, að við værum komnir sæmilega á stað. Það eru líka í þessu frv. tryggingarákvæði til handa landbúnaðinum, ef hinn fyrirhugaði ríkisveðbanki kemst á fót, og verður það að teljast sanngjarnt, að landbúnaðurinn njóti lána úr þeim sjóðum, sem fyrir bann eru stofnaðir, með sæmilegum kjörum.

Þá hefi jeg minst á þá hlið frv., sem lýtur að því að lyfta undir aukin jarðyrkjustörf, og vil jeg þá ofurlítið koma að öðrum meginþættinum, sem er eftirlit með þessum störfum.

Hingað til hefir það verið svo, að jarðabætur þær, sem ríkið hefir styrkt, hafa verið stofnaðar án eftirlits, og ekkert eftirlit heldur með viðhaldinu. Þannig má fullyrða, að ýms af þessum verkum hafa orðið að litlu eða engu. En fyrir þessu er trygging sett í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að Búnaðarfjelag Íslands, sem eftirlitið með framkvæmdinni hefir með höndum, hafi búnaðar eða eftirlitsmann í hverjum hreppi landsins. En þegar ræða er um þetta eftirlit, verður naumast hjá því komist að taka til samanburðar þau stórfyrirtæki, sem hafa verið framkvæmd og verið er að framkvæma fyrir stórfje úr ríkissjóði. Á jeg þar við Miklavatnsmýraráveituna, Skeiðaáveituna, Flóaáveituna og vatnaþurkunina í Rangárvallasýslu. Með sjerstökum lögum er ákveðin þátttaka ríkissjóðs í þessum fyrirtækjum, að undantekinni Miklavatnsmýraráveitunni, og þó á lítt rannsökuðum grundvelli. Aðaltilgangurinn hefir verið að tryggja ákveðið fjármagn úr ríkissjóði til fyrirtækjanna, án tillits til þess, hvort hlutaðeigendur gætu borið kostnaðinn og hvað fyrirtækið raunverulega ætti að gefa í aðra hönd. Engin tilraun fyrst gerð í smærri stíl, til þess að fá nákvæma, vísindalegarann sókn á þessum málum. Reynslan hefir líka sýnt, hversu vöntunin er mikil. Miklavatnsmýraráveitan, sem máske hefir átt að vera tilraunaáveita, hefir kostað yfir 55 þús. kr. Þar af hefir ríkissjóður og Búnaðarfjelag Íslands lagt fram 35 þús. kr., og 20 þús. kr. lán hafa hlutaðeigendur tekið. Vatnið náðist. En nú er skurðopið fult af sandi og möl, áhuginn dauður, og við þetta situr. Þarna er tilraunin. Skeiðaáveitan kostaði undir það þrisvar sinnum meira en áætlað var, eða alls um 400 þúsund. Hún er nú að fullgerast. Hvert býli á áveitusvæðinu fær 10 þús. kr. í hlut af kostnaðinum, fyrir utan ríkissjóðsstyrkinn. Bændurnir rísa ekki undir þessu og biðja nú um uppgjöf á lánunum. Þótt nú áveitan næði tilgangi sínum hvað gróðuraukningu snertir, þá geta bændurnir ekki notið hans, nema um leið að auka bústofninn, og það geta þeir ekki nema með nýjum lánum. Og þá er eftir að koma afurðunum á markaðinn. En áður en þetta kemst í kring, eru þeir orðnir herfang ríkissjóðs eða bankanna. Mundi nú ekki vera hægt að stofna til aukinnar jarðræktar með minna kostnaði en þetta og af meira viti? Um Flóaáveituna verður enn ekkert sagt, eða fyrirhleðsluna í Þverá og Markarfljót, sem ríkissjóður kostar að tveim þriðju. Vonandi verður það betra, en hve miklu betra, læt jeg ósagt um.

Þetta ætlast jeg til, að sýni það ótvírætt, hve sjálfsagt það er, að færustu og mentuðustu menn í þessum greinum hafi undirbúning og framkvæmd allra jarðræktarmála, eins og allra fyrirtækja í landbúnaðarmálum. Og það verður að ganga út frá því, að Búnaðarfjelag Íslands hafi ávalt í þjónustu sinni bestu mennina á þessu sviði. Ef þetta heldur áfram á þeirri braut, sem það nú er, er sýnilegt, að ríkissjóður verður þurkaður upp af einstökum landshlutum. Aðrir, sem hafa miklu betri skilyrði, en í smæri stíl, verða að sitja á hakanum og kosta alt sjálfir.

Annars er það einkennilegt, að í þessum góðsveitum landsins, sem kallaðar eru hjarta þess, þar sýnist afkoma manna ekki vera betri en víða annarsstaðar. Það er eins og auðtekin öflun skapi hóglífi, en erfiðleikarnir dugnað og þrautseigju. Ólíkt standa þeir þó að vígi, sem eru umvafðir fjölskrúðugum graslendum, eða hinir, sem hafa það eitt hlutskifti, að rækta upp móa og mela, og það sýnist ekki ósanngjarnt, að þeir fengju að njóta að jöfnu styrks úr ríkissjóði.

Þessir tveir þættir í frv.: aukning ræktunarinnar og nákvæm umsjón og eftirlit með framkvæmd og viðhaldi, vænti jeg, að háttv. deild þyki svo mikils verðir, að frv. þess vegna ætti að ná framgangi.

Ýms ákvæði eru í því önnur, svo sem um vjelyrkju, erfðafestu og nýbýlarækt, en sem jeg við þessa umræðu geri ekki að umtalsefni, nje heldur breytingar þær, sem nefndin hefir gert í einstökum atriðum.