27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get þakkað háttv. deild, fyrir nefndarinnar hönd, fyrir góðar viðtökur á þessu frv.

Jeg mun reyna að vera svo stuttorður, sem kostur er á, en verð þó að athuga ýmislegt viðvíkjandi frv. og brtt., sem allmargar eru komnar fram. Ætla jeg þá að byrja á því að skýra nánar frá því, hver útgjöld það mundi hafa í för með sjer fyrir ríkissjóð, ef þetta frv. yrði að lögum.

Jeg gat um það við 1. umr., hversu miklu styrkur til túnræktar út af fyrir sig myndi nema samkvæmt frv. Sýndi jeg fram á, að enda þótt dagsverkatala á þeirri grein jarðræktarinnar ykist um helming frá því, sem nú er, þá myndi styrkurinn samt ekki verða hærri en nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. stjórnarinnar, að veitt verði til búnaðarfjelaga til styrktar slíkum framkvæmdum. miðað við kr. 1.50 á hvert dagsverk.

Um önnur atriði í II. kafla frv., svo sem bygging áburðarhúsa, sem á að styrkja að 1/3, skal jeg taka það fram, að ekki er gott að gera nákvæma áætlun um það, hvaða kostnað myndi af því leiða. En ef bygð yrðu áburðarhús og safnþrær á hverju býli landsins, en þau eru um 6000 alls, þá mætti gera ráð fyrir, að þau yrðu um 270000 teningsmetrar að stærð, og 1/3 kostnaðar við byggingu þeirra nema sem næst 11/2 miljón króna. Þetta eru að vísu háar tölur og mikið fyrir ríkissjóð að svara þessu út. En ef þetta er borið saman við það, sem gert hefir verið síðan um aldamót, þá sjest, að á þeim 22 árum, sem síðan eru liðin, hafa verið gerð alls áburðarhús og safnþrær, er nema 40000 teningsmetrum, og 1/3 af byggingarkostnaði þeirra nemur þá 220000 kr., eða 10000 kr. á ári. Er þannig búinn nú þegar 1/7 hluti af þessum byggingum. — Nú má gera ráð fyrir, að heldur frekar verði gert að byggingum í þessari grein eftirleiðis, og hækkaði þá styrkurinn sem því svaraði. Væri bygt helmingi meira, yrði styrkurinn 20000 kr. á ári; ef þrisvar sinnum meira, þá 30000 kr., o. s. frv. Þarf því ekki að búast við stórfeldum kostnaði af þessum lið, en þetta er eitt af því fyrsta, sem framkvæma á, því undir hagnýtingu áburðarins er túnræktin komin.

Þá kem jeg að garðræktarstyrknum, en hann á að nema þess, er gerð nýrra matjurtagarða kostar. Það er sama um hann að segja, að ákveða nákvæmlega, hve mikill hann muni verða. En ef litið er til þess, sem inn hefir verið flutt af jarðeplum síðustu árin, má komast nokkuð nærri því, hve miklu hann muni nema. Á árunum 1915 til 1919, að báðum meðtöldum, hafa verið flutt inn jarðepli fyrir 1300000 kr., eða fyrir 260000 kr. til jafnaðar á ári. Hafa verið á þessum árum fluttar inn 11600 tunnur árlega, en sjálfir höfum við ræktað 33000 tunnur til jafnaðar á ári. Má af þessu sjá, að ræktunin þarf ekki að aukast nema um 1/4 hluta til þess, að ekki verði lengur þörf á því að flytja jarðepli inn frá útlöndum. Kostnaðurinn við þennan ræktunarauka myndi nema ca. 225000 kr., og er það minna en nú er árlega greitt út úr landinu fyrir innflutt jarðepli. 1/5 hluta af þessari upphæð á svo ríkissjóður að leggja til, og yrðu það þá 45000 krónur, sem landið legði til alt í alt, og skiftist það niður á mörg ár, sem þó væri óskandi, að yrðu sem fæst. Ef það tæki 9 ár, yrði kostnaður ríkissjóðs 5000 krónur á ári. En þó því marki yrði náð að auka svo innlenda garðrækt, að framleitt yrði jafnmikið og nú er neytt í landinu, þá ber náttúrlega ekki að láta þar staðar numið, heldur auka ræktunina áfram, og þá jafnframt halda áfram styrkveitingum til hennar.

Samkvæmt því, sem jeg hefi nú talið, er augsýnilegt, að með þessum kafla frv. er ekki um neinar stórupphæðir að ræða. Ef rækilega verður tekið til að rækta, þá nemur það máske alls um 140000 kr. árlega, þegar frá líður. En eins og jeg hefi tekið fram, er ekki unt að gera um það nákvæma áætlun. Tek jeg þetta aðeins fram til þess, að háttv. deild geti sjeð, að hjer verður ekki að ræða um stórvægileg útgjöld úr ríkissjóði.

Þá kem jeg að III. kafla frv., og er þar fyrst heimilað að veita úr ríkissjóði 50000 krónur á ári til þess að kaupa og starfrækja jarðræktarvjelar. Í upphaflega frv. var farið fram á, að veittar yrðu 100000 krónur í þessu skyni, og var það miðað við þá reynslu, sem fengist hefir um árlegan kostnað við starfrækslu vjelanna, en var þó áætlað heldur ríflega, svo að nokkur afgangur yrði til nýrra verkfærakaupa. Jafnframt var upphaflega ætlast til, að vinnukaupendur gætu fengið allan vinnukostnaðinn lánaðan. Þessu breytti nefndin þannig, að hún færði styrkinn úr ríkissjóði niður í 50000 kr. og að vinnukaupendur gætu fengið hálfan starfrækslukostnaðinn lánaðan, gegn fullnægjandi tryggingu. Áleit nefndin, að þetta mundi ekki verða neitt til þess að draga úr notkun vjelanna. Báðar vjelarnar kostuðu um 120000 krónur, og á það, sem eftir stendur af andvirði þeirra, um 84000 kr., að greiðast úr ræktunarsjóði, samkv. 19. gr. frv.

Það, sem nú er útistandandi fyrir vinnu þúfnabananna, er um 40000 kr., og stendur inni bæði á Suður- og Norðurlandi. Þetta fje á að renna í sjerstakan sjóð, vjelasjóð, og sömuleiðis allir vextir og afborganir af lánum samkvæmt 16. gr. frv. en þau lán endurgreiðast og ávaxtast eftir sömu reglum og nú gilda um jarðræktarlán úr ræktunarsjóði.

Hversu langt verður þangað til vjelasjóðurinn er orðinn það stór, að hann geti borið kostnaðinn við starfrækslu og innkaup á landbúnaðarvjelum, er ómögulegt að áætla nákvæmlega. Reynsla er enn ekki fengin fyrir því, hvort vjelar þessar verða framtíðartæki eða ekki, og þess ber að gæta, að það, sem unnið hefir verið með þeim hingað til, er það hagfeldasta, sem gera má ráð fyrir, mest samfeld landsvæði, eins og t. d. hjerna í grend við Reykjavík. Má búast við, að þær verði minna notaðar úti um land, að minsta kosti þar, sem ekki er nema um smá landsvæði að ræða, sem hægt er að koma þeim við, enda hefir reynslan þegar sýnt, að vinnan verður þar dýrari en með hestum. Þess vegna er ekki gott að vita. hve lengi verður að safnast í sjóðinn, en líklegt er, að það taki ekki mjög langan tíma, því vinnan verður sjálfsagt seld eitthvað dýrara en kostnaðinum nemur. Yrði lagt í sjóðinn 50000 kr. á ári, mundi það nema eftir 10 ár 1/2 miljón. og 5% vextir yrðu 25000 kr„ eða sem svaraði hálfu framlagi ríkissjóðs.

Annars vill nefndin leggja áherslu á það, að ekki sje keypt inn meira af þessum vjelum, fyr en reynsla er fengin með þær að fullu.

Þá kem jeg að IV. kafla frv., sem er um jarðræktarlán. Um þann kafla urðu nokkrar umræður við 1. umr. Þess vegna bar nefndin sig saman við háttv. 1. þm. Reykv. (JakM). Var hann sammála nefndinni í því, að ákvæði kaflans mundu ekki fara neitt í bága við ríkisveðbankalögin. Þar sem engin brtt. hefir komið fram við þennan kafla, má líta svo á, að hv. deild álíti, að ákvæði þau, sem í honum eru, geti átt heima í þessum lögum, og fjölyrði jeg svo ekki frekar um það.

Við V. kafla frv. hefir nefndin komið fram með eina brtt. Í kafla þessum, sem er um jarðeignir ríkissjóðs, er svo ákveðið, að jarðabætur, sem leiguliði á þjóðjörð eða kirkjujörð greiðir með landskuld og leigur, skuli metnar til slíkrar greiðslu helmingi minni en ella. Nefndinni þótti við nánari athugun, að þetta væru nokkuð harðir kostir, og leggur því til, að fyrir „helmingi minni“ komi: þriðjungi minni. Er því fremur sanngirni í því að lækka þetta, þar sem svo er ákveðið, að leiguliðarnir fái engan styrk af opinberu fje til þessara jarðabóta. Vonar nefndin, að hv. deild fallist á þetta og samþykki brtt.

Þá kem jeg að VI. kaflanum, um erfðafestulöndin. Nefndinni var ókunnugt um, hvaða reglur giltu um þetta í kaupstöðum landsins. En frá ríkissjóðs hálfu hefir það verið samningsatriði oftast við kaupstaðina, eða kauptún, þar sem ríkissjóður hefir átt land, hvernig þessum málum væri fyrir komið. Við 1. umr. kom fram athugasemd frá háttv. 2. þm Reykv. (JB). um að ákvæði frv. mundu fara í bága við þær reglur, er gildi hjer í Reykjavík. Kallaði nefndin því borgarstjóra á fund með sjer, og kom þá í ljós, að sum atriði kaflans mundu ekki koma vel heim við það, sem tíðkast hjer í Reykjavík, og varð því að samkomulagi, að nefndin bæri fram brtt. á þá leið, að Reykjavík yrði undanskilin þessum ákvæðum. Vera kann, að sömu ástæður sjeu fyrir hendi í fleiri kaupstöðum, án þess að nefndinni sje það kunnugt, en ef málefnum bæja verður sjerstaklega skipað með lögum innan skamms, þá má breyta þessu til betri vegar. Að öðru leyti þarf jeg ekki að fara nánar út í þennan kafla frv.

Þá kem jeg að VII. kaflanum, um tilraunanýbýli. Nefndin hefir, eins og hv. þingdm. hafa sjeð, breytt tölu nýbýlanna, sem gera á tilraun með, frá því sem stóð í upphaflega frv., eða bundið ákvæðið við 2 nýbýli, í stað 5. Má ýmislegt um þetta atriði frv. segja. Er það eftirtektarvert, að frá því fyrsta að farið var að hugsa um jarðrækt og eflingu landbúnaðarins hjer á landi, hefir mikið verið um það hugsað að koma upp nýbýlum. Sjást þess merki þegar á 18. öld. Árið 1776 er sett „tilskipun um fríheit fyrir þá, sem vilja taka upp eyðijarðir eða óbygð pláz á Íslandi“. Samkvæmt þeirri tilskipun er þeim, sem reisa nýbýli eða setjast að á eyðijörðum. veitt ýms hlunnindi. t. d. eru þeir leystir undan öllum sköttum og tíundargjaldi í 20 ár. Auk þess eignuðust þeir býlið endurgjaldslaust, ef enginn annar gerði lögmætt tilkall til landsins, en höfðu ella lífstíðarábúð. Þessi tilskipun er numin úr gildi með lögum um nýbýli frá 1897, sem miða einnig að því, að stofnuð sjeu nýbýli. Var um þær mundir talsverð hreyfing í þá átt, en árangurinn varð lítill. Virðast flest af þeim býlum, sem reist hafa verið, hafa lagst aftur í eyði. Hugmyndin um stofnun nýbýla hefir þó altaf haldist við, og er hún nú nokkuð á annan veg en áður var. Sumarið 1902 ferðaðist Þórhallur heitinn Bjarnarson biskup um Snæfellsnes, og í grein, er hann skrifar um þá ferð 1904. getur hann þess, að besta ráðið til þess að tryggja fólk í sveitunum væri að koma upp nýbýlum. En eins og jeg hefi tekið fram, bendir reynslan til, að nýbýlarækt á þeim grundvelli, sem verið hefir hingað til. sje ekki sjerlega heppileg. Það er margs að gæta og við mikla örðugleika að etja, þegar fjelaus maður kemur að óræktuðu landi og stofnar til bús. Þegar hann er búinn að byggja nauðsynleg hús og koma sjer upp gripum, er komið svo mikið fje í það, að ómögulegt er fyrir hann að lifa við það, nema hafa vissan markað fyrir afurðirnar; og er það vitanlega stærsta atriðið.

Þó að þessi stefna verði nú tekin upp, sem farið er fram á í frv., að ríkið kosti ræktun nýbýla, þá eru líkindin engu minni á því, að tap verði á rekstri þeirra, en þótt einstaklingar ættu í hlut. heldur jafnvel öllu meiri. En enda þótt nefndin hafi ekki trú á því, að þessi nýbýli í Mosfellslandi komi til með að bera sig, þá vill hún þó ekki leggja á móti því, að haldið verði áfram tilraunum með þau. Kostnaðurinn við að fullrækta landið er áætlaður 1350 krónur á hvern hektara, og þegar þar við bætist kostnaður við bygging íbúðar- og peningshúsa, þá verður leigan af þessu svo mikil, sem nýbyggjunum er ætlað að greiða, að óvíst er, að þeir geti klofið þann kostnað, jafnvel þótt þeir hefðu nægan markað. Nefndin gerir ráð fyrir, að kostnaðurinn við hvert býli verði svo mikill, þegar alt kemur til alls, að 4% af honum nemi um 1600–1700 krónum á ári.

Mjer virðist líklegast, að ef nýbýlahugmyndin á að komast í framkvæmd, þá verði það helst með samningi við bændur, þannig að nýbygginn leigði land af bóndanum og ræktaði það, en hefði svo samninga við bóndann um atvinnu hjá honum þann hluta ársins, sem hann þyrfti ekki að vinna sjálfum sjer. Álít jeg þetta eina grundvöllinn, sem tryggur gæti reynst í þessu máli.

Jeg hefi þá drepið á aðalatriðin viðvíkjandi kostnaðinum, sem af frv. mundi leiða, og þarf jeg ekki að fara nákvæmar út í það atriði, enda munu háttv. þdm. sjálfsagt vera búnir að kynna sjer það áður að mestu.

Nefndin hefir komið fram með nokkrar brtt. við frv., og hefi jeg þegar minst á þær.

Jeg vil þá minnast nokkuð á brtt. þær, sem komnar eru fram við frv., og fyrst á brtt. á þskj. 407, frá háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). I. brtt. fer fram á að lögbjóða þá skipan á stjórn Búnaðarfjelags Íslands, sem fjelagið hefir nýlega tekið upp. Nefndin getur fallist á að taka þetta ákvæði upp í frv. með viðaukatillögu á þskj. 423, að landbúnaðarnefndir Alþingis hafi tillögurjett um stjórn fjelagsins, og er það samkvæmt því, sem Búnaðarfjelagið hefir tekið upp.

Þá er II. brtt. á sama þskj., við 7. gr. Samkvæmt frv. sker Búnaðarfjelagið úr þeim ágreiningi, sem þar greinir, en brtt. fer fram á, að þetta sje felt niður og fært aftur í 13. gr., með þeirri breytingu, að atvinnumálaráðherra skeri úr, sbr. V. brtt. á sama þskj. Nefndin getur ekki fallist á þessa brtt. Telur hún, að ekki muni geta til þess komið, að stjórn Búnaðarfjelagsins sje ekki einfær um að skera úr þvílíkum deilum, og telur óþarft að ónáða atvinnumálaráðherra um slík smáatriði. Sjer nefndin því ekki ástæðu til að breyta þessu, þar sem Búnaðarfjelagið er líka, þá sjaldan þetta mundi koma fyrir, rjettur aðili til að setja niður slíkan ágreining.

VI. brtt. á þskj. 407 fer fram á að fella niður 15. gr., sem mælir svo fyrir, að árlega megi veita úr ríkissjóði alt að 50000 kr. til þess að kaupa og starfrækja nýtísku jarðræktarvjelar. Í stað þess er Búnaðarfjelaginu falið, með VII. brtt. á sama þskj., að sjá um þetta, en ekki ákveðin nein upphæð, sem verja megi í þessu skyni. Nefndin getur ekki verið samdóma háttv. flm. (MJ) um þetta. Hún telur, að eftir brtt. sje það ótakmarkað, sem til þessa má verja, og gæti það valdið ríkissjóði meiri útgjöldum. Það yrði sem sje undir öllum kringumstæðum að starfrækja þær vjelar, sem Búnaðarfjelagið hefði keypt, og þó að það sje á þingsins valdi, hve miklu það vill verja til þessa, verður það að veita nóg til þeirrar starfrækslu. Nefndin vill því binda þetta í lögunum við ákveðna upphæð, sem ekki megi fara fram úr.

Þá er 1. brtt. á þskj. 420. frá háttv. 2. þm. Skagf. (JS). Fer hún í þá átt, að það, sem megi veita til starfrækslu og tilrauna með jarðræktarvjelar, sje bundið við áðurnefnda upphæð, en í henni felist tekjur vjelasjóðs. Við það minkar tillag ríkissjóðs; en aftur á móti verður þess þeim mun lengra að bíða, að vjelasjóður geti annast þetta einn. Eftir þessari brtt. eru vjelakaup tekin undan þessari upphæð, og á þingið þá að ákveða í hvert sinn. hve miklu skuli varið í því skyni. Þetta tryggir, að vjelar verði ekki keyptar, nema með samþykki þingsins, en þá verður tillag ríkissjóðs aftur hærra, þar sem sjerstök fjárveiting er ætluð til þeirra kaupa. Nefndin álítur, að verði þessi brtt. samþykt, mætti færa upphæðina niður um 10000 krónur: starfræksla vjelanna mundi ekki kosta meira en 40000 kr., og væri ástæðulaust að veita meira fje til hennar. Nefndin gæti fallist á að taka vjelakaupin undan, verði upphæðinni breytt, og mælist hún því til þess við háttv. flm. (JS), að hann taki brtt. aftur, svo að hún geti komið sjer saman um þetta við hann fyrir 3. umr.

2. brtt. á þskj. 420 leiðir af þeirri fyrstu, og felur auk þess í sjer nánari ákvæði um lán þau, sem gert er ráð fyrir að veita mönnum, sem nota þessar vjelar. Þar er tekið fram, að lánin skuli veitt með sömu tryggingu, vöxtum og afborgunarskilmálum, sem gilda um lán úr ræktunarsjóði. Það var tilætlun nefndarinnar, að ákvæði 16. gr. um afborgunar- og vaxtakjör ættu að skiljast á þennan hátt. En aftur er það tekið fram í brtt., að þessi lán skuli veitt gegn ekki lakari tryggingu en ræktunarsjóðslán. Háttv. flm. (JS) hefir ætlað að binda þetta sem mest við ákvæðin, sem gilda um lán úr ræktunarsjóði, og er nefndin þar á sama máli sem hann. En hún telur, að fá megi fullnægjandi tryggingu, þó ekki sje á sama hátt sem um ræktunarsjóðslán. Tryggingar fyrir þeim lánum eru margbrotnar og umsvifamiklar, með meðmælum sýslunefnda, og gæti það orðið óþægilegt fyrir menn, að þurfa að fara eftir því um þessi lán. Jeg skal taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, og leggja áherslu á, að hún ætlast til, að ekki verði um annað að ræða en jarðarveð, því að aðrar tryggingar eru svo stopular og þurfa endurnýjunar, en þessi lán verða veitt til langs tíma. Hjer skilur ekki mikið á milli háttv. flm. (JS) og nefndarinnar, og ef hann vill taka þessa brtt. aftur til 3. umr., vænti jeg, að auðvelt sje að finna leið til samkomulags.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) flytur brtt. á þskj. 418, við 34. og 38. gr. Nefndin er samþykk þessum brtt. að öllu leyti. Um ákvæði 34. gr., að menn eigi að sanna fyrirfram, að þeir ætli að taka land sitt til ræktunar, felst nefndin á, að það sje tæplega framkvæmanlegt; fellir hún sig því við skilyrðin í brtt. og telur hana til bóta. Sama er að segja um brtt. við 38. gr., að gripheld girðing skuli jafnan um þann hluta landsins, sem ræktaður er. Það er ekki tekið fram í greininni, en nefndin taldi það svo sjálfsagt, að vart þyrfti að taka það fram, því að án þess yrði land ekki tekið til ræktunar, allra síst í kaupstöðum.

Fleiri brtt. hafa ekki komið fram, og skal jeg að síðustu drepa á eitt atriði, sem jeg hefi geymt, en það er um erfðafestulönd. Upphaflega var svo ákveðið í frv., að þar sem taka mætti land til ræktunar samkvæmt skilyrðum VI. kafla, gætu hreppsnefndir í kauptúnum og bæjarstjórnir í kaupstöðum tekið land til ræktunar utan takmarka kaupstaðanna eða kauptúnanna, þó að einstakir menn ættu. Nefndin breytti því svo, að þetta næði einungis til þeirra landa, sem eru innan takmarka kaupstaða og kauptúna, en ef þjóðjörð eða kirkjujörð liggur að landi kaupstaðar eða kauptúns, skuli það fara eftir tillögum Búnaðarfjelagsins, hvort þessi ákvæði skuli ná til þeirra. Leggur nefndin áherslu á, að hún ætlast ekki til, að lönd utan takmarkanna, sem eru eign einstakra manna, skuli hlíta þessum ákvæðum.