27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

110. mál, jarðræktarlög

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætla mjer ekki að ræða mál þetta yfirleitt, aðeins minnast á nokkrar brtt. á þskj. 407, frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Mjer virðist 3. brtt. hans þess eðlis, að jeg muni ekki geta samþykt hana. Veit jeg eigi, hvað hv. flm. (MJ) hefir gengið til að koma með hana, en jeg skal taka fram, hvers vegna jeg er á móti henni.

Það er ekki hægt að ætlast til þess, að þeir menn, er um ræðir í síðustu málsgr. 10. gr. frv., fátækir einyrkjar, geti unnið mikið að jarðabótum. Er því full sanngirni í því, að þeir njóti styrks fyrir dagsverk þau, er þeir vinna fram yfir 5. ekki síður en þeir, sem njóta styrks fyrir þau dagsverk, er þeir vinna fram yfir 10, þar sem ástæður þeirra manna eru ólíkt betri en hinna fyrtöldu.

Fjórðu brtt. tel jeg alls óþarfa, og þó heldur til hins lakara. Liggur það í hlutarins eðli, að þessi öryggisráðstöfun, sem í brtt. á að felast, er aðeins endurtekning á því, sem stendur í frvgr. sjálfri, því að þar er einmitt trúnaðarmanni Búnaðarfjelagsins falið að velja garðstæðið og samþykkja það. Samþykkir hann auðvitað ekki nema því aðeins, að fyrirtækið sje að lihans dómi skynsamlegt.

Brtt. við 15. gr. er nokkurt álitamál, en jeg mun þó ekki geta gefið henni atkv. mitt. Má vera, að rjettara sje að sumu leyti að fastbinda ekki þessa fjárupphæð, en að því leyti er þó það betra, að þá er síður hætt við, að þessi starfsemi falli niður.

Hinar brtt. við frv. fellst jeg á og tel þær til bóta.