30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

110. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Jeg get verið stuttorður; skal aðeins í fám orðum skýra hv. deild, hvað fyrir mjer vakir með brtt. mínum á þskj. 420. Það er fyrst og fremst að lækka útgjöld ríkissjóðs til vjelayrkju og dreifa þeim á fleiri ár. Ef reiknaðir eru frá vextir, sem höfuðstóll vjelasjóðs gefur af sjer, þá lækkar það, sem ríkissjóður leggur til. Ef t. d. 50000 krónur eru lagðar fram árlega, þá gefur það með 4% vöxtum af sjer á næstu 5 árum 2000 til 10000 krónur árlega, sem dragast frá ríkissjóðstillaginu eftir mínum tillögum. Að þeim tíma liðnum fara að koma afborganir af því fje, sem lánað hefir verið úr vjelasjóði, en það þarf jeg ekki að taka með í reikninginn nú, því áður 5 ár eru liðin á að endurskoða lögin, og verður þeim þá breytt eftir þeirri reynslu, sem þá er fengin.

Annað atriði, sem fyrir mjer vakti, var það, að ekki væri ráðist í kaup á dýrum vjelum án samþykkis þingsins. Í þriðja lagi, að markmið vjelasjóðs sje ekki að kaupa, heldur útvega og gera tilraunir með nýjar vjelar, sem hjer gætu komið að haldi. Væri að líkindum hægt að fá slíkar vjelar með því að verksmiðjurnar lánuðu þær til reynslu, en ekki væri skylt að kaupa þær, nema reynslan sýni, að búhnykkur sje að þeim, eftir að nægilegar tilraunir hefðu verið gerðar með þær. Og ef þetta lægi undir ákvæði þingsins, þá yrði ekki lagt í slíkt, nema viss og örugg reynsla væri fengin. Brtt. miða aðallega að því að breyta hlutverki vjelasjóðsins þannig, að fje hans sje eingöngu varið til þess að gera tilraunir með landbúnaðarvjelar og starfrækja þær, en þó ekki nema brýn þörf krefji, því að jeg álít mikið heilladrýgra, að einstaklingar sjái um rekstur vjelanna en ríkið.

Það varð að samkomulagi við nefndina, að jeg tæki aftur 2. lið brtt., því þeim ákvæðum má eins ná í reglugerð.

Þetta mál hefir nú fengið svo góðar og almennar undirtektir í háttv. deild, að jeg þarf víst ekki að mæla með því sjerstaklega. En það er mín sannfæring, að ef þetta frv. verður að lögum, sje stigið stærra spor til eflingar jarðræktinni en með nokkrum öðrum lögum, er Alþingi hefir áður samþykt, og þótt þau leggi nokkra byrði á ríkissjóð, mun það sannast, að það mun margfaldlega endurgreiðast ríkissjóði með auknum tekjuskatti úr sveitunum, er fram líða stundir.