30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

110. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Jeg skal vara háttv. þm. við að láta sjer verða bilt við, þó að brtt. komi við þetta frv., eftir að það er afgreitt frá deildinni. Jeg hefi sem sje gert brtt. við 10. gr., en þær eru ekki komnar úr prentsmiðjunni. Mjer finst greinin óviðkunnanlega orðuð, að binda hlunnindi þau, sem einyrkjar fá þar umfram aðra menn, við fátæka einyrkja. Öll lögin miða að framkvæmdum, og eru engin önnur ákvæði bundin við efnahag. Því orðaði jeg brtt. mína svo, að í stað „fátækir einyrkjar“ komi: einyrkjar.

Þá þykir mjer orðalagið á niðurlagi greinarinnar nokkuð rúmt, og vildi jeg breyta því á þá leið, að það kæmi ljóst fram, að þessi hlunnindi ættu einungis við ákvæði greinarinnar sjálfrar. Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta: jeg býst ekki við, að hæstv. forseti sjái, með allri sinni speki, nokkur ráð til þess að koma brtt. að, og jeg vil ekki fara fram á að fá að koma með skriflega breytingartillögu.