14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg skal heldur ekki verða til þess, fremur en hv. frsm. meiri hl. (MG), að innleiða kappræður um málið. Jeg vil aðeins taka það fram, að eins og nú er komið, virðist mjer heppilegast og sjálfsagðast, að málið verði afgreitt út úr deildinni eins og það fór frá 2. umr. Þjóðinni finnast skattarnir nú of þungir, og það eru þeir að ýmsu leyti, og til þess verður að taka tillit. En þrátt fyrir það, þótt mjer finnist, vegna hagsmuna ríkissjóðsins, að nú sje í bráðina langt gengið, þar sem draga má frá aukaútsvörin, þá verður því ekki neitað, að frv. fer í rjetta átt til frambúðar. Að vísu er þetta vont fyrir ríkið, en ekki má í þessu efni horfa alt of mikið á hagsmuni ríkissjóðs, heldur líka á gjaldþol almennings. Þetta tvent verður að reyna að sameina, og það álít jeg að gert hafi verið af minni hlutanum. Hins vegar skil jeg ekki, hvers vegna hv. meiri hluti hefir verið að koma fram með nýjan skattstiga, nema ef það væri til þess að láta líta svo út, sem hann hafi sigrað, en það hefir hann alls ekki gert. Jeg verð því að vera á þeirri skoðun, að rjett sje að halda sjer við þá niðurstöðu, sem þegar er fengin, og vera ekki að hringla neitt í henni. Jeg vil ekki snúa aftur af rjettri braut, hvort sem mönnum þykir það miður eða vel, og jeg vona, að þessi hv. deild verði á sama máli, og skal því ekki fjölyrða um þetta að sinni.