23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Þorláksson:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) gat um, að áskorun hefði komið frá bæjarstjórn Reykjavíkur út af þessu máli. Þykir mjer rjett að lofa háttv. deild að heyja hana. Var hún samþykt með shlj. atkv. 20. þ. m. og hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur leyfir sjer að vekja athygli Alþingis á því, að ákveðið er með samþykt, staðfestri af ráðuneytinu, að nota skuli skemtanaskattinn í Reykjavík til að koma upp barnahæli og gamalmennahæli. Er slíkra hæla afarmikil þörf, en vansjeð, að unt sje í náinni framtíð að fá fje til framkvæmda, ef skemtanaskatturinn verður tekinn til annars.

Skorar bæjarstjórnin því á Alþingi að láta heimildarlögin um skemtanaskatt standa óhögguð.“

Er því hjer meira um að ræða en fyrirætlun bæjarstjórnarinnar um það, hvernig fjenu skuli varið, því að reglugerð, staðfest af stjórnarráðinu, er þegar sett.

Er mikil þörf á þessum líknarstofnunum, og verð jeg að segja, að jeg á bágt með að greiða frv. atkv. mitt, þegar taka á fjeð frá þessum nauðsynjafyrirtækjum, þótt jeg hins vegar viðurkenni nauðsynina, sem er á því að fá gott þjóðleikhús, og vilji ljá því máli liðsinni mitt. En hræddur er jeg um, ef frv. verður samþykt, að þá drægist að koma upp hælunum, og væri það illa farið.

Jeg vil líka vekja athygli á öðru atriði í þessu máli. Það varð ágreiningur milli bæjarstjórnarinnar og íþróttamanna um skilning á þessum lögum. Bæjarstjórnin heimtaði skatt af kappleikum áhugamanna, en þeir kvörtuðu og fengu stuðning Alþingis um það, að íþróttir, sem áhugamenn stunduðu, væru undanþegnar skattinum. En nú mun vafasamt um þetta eftir frv. — Vil jeg beina því til háttv. flm. (JakM) og háttv. frsm. (ÞorstJ), hvort þeir vilji ekki hlutast til um, að frv. verði tekið af dagskrá nú og athuga þetta og reyna einnig, hvort ekki verði náð samkomulagi um það, að lögin gangi ekki í gildi fyr en Reykjavík er búin að fá stofn til byggingar barna- og gamalmennahæla, svo að þeim verði ekki skotið á frest. Þarf ekki svo ýkjamikla fjárhæð til þessa og skatturinn er talsvert mikill.