23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jakob Möller:

Jeg skal vekja athygli á því, að jeg hefi haldið því fram, og fært full rök fyrir því, að skemtanaskatturinn sje þannig vaxinn, að hann eigi ekki að vera sveitarskattur. Þótt þingið 1910 heimilaði bæjarfjelögum að nota þennan tekjustofn, þá er því engu síður heimilt að svifta þau honum og nota fjeð öðruvísi. Hafa líka bæjarfjelögin verið mjög sein á sjer að nota þessa heimild. Lögin voru samþykt á þinginu 1918, en fyrsta reglugerðin var sett í árslok 1921 hjer í Reykjavík, og var hún samþykt af bæjarstjórninni með hangandi hendi. Meiri var áhuginn ekki. Jeg vil líka vekja athygli á því, að frv. hefir legið hjer fyrir þinginu í einn mánuð og það verið alkunnugt, að það var búið að ganga hjer í gegnum tvær umræður, en nú fyrst við 3. umr. þess er komið með þetta mótmælaskjal, og það er ekki einu sinni, að það komi rjetta boðleið til forseta, heldur hefir því verið skotið inn nú í fundar byrjun.

Svona er nú áhugi bæjarstjórnarinnar. Þetta kemur fyrst nú. Er heldur ekki að undra, þótt hann sje lítill, því að mótmælin munu aðallega komin fram vegna gremju bæjarstjórnarinnar út af afdrifum annars máls.

Hefi jeg og átt tal við borgarstjóra og ýmsa bæjarfulltrúa, síðan frv. kom fram, og hefir enginn hreyft andmælum gegn því.

Annars mun þessi skattur hrökkvi skamt til að koma upp þessum hælum og reka þau, og mun líka sú verða reyndin á, að hann rennur inn í bæjarsjóðinn og verður þar að eyðslueyri, líkt og landhelgissjóðurinn er kominn inn í ríkissjóðinn og eyddur. Er þetta gangurinn bæði hjá ríkinu og bæjarstjórn. Ef nauðsyn er á að koma upp þessum hælum, þá munu önnur ráð til en þetta. Er þegar komið upp gamalmennahæli hjer fyrir áhuga einstakra manna. Eru þessar stofnanir víðast hvar svo til orðnar. Um barnahælið verð jeg líka að segja það, að jeg veit ekki, hversu ákjósanlegt það er að koma því upp. Hefi jeg aldrei heyrt nema ilt um þesskonar hæli. Mega það vera aum heimili, sem ekki sjá betur um börnin en þessar opinberu stofnanir. En sje þörfin brýn, mun hægt að fá fje með aðstoð almennings. Öðru máli gegnir með leikhúsið. Því er ómögulegt að koma upp nema með aðstoð þess opinbera, annaðhvort með beinu framlagi eða á þann hátt. sje frv. fer fram á.

En verði ekkert aðgert, fellur leiklistin niður og aðrar skemtanir koma í staðinn, sem fólkið vill eins vel, en þörfin á leikhúsi gleymist.

Jeg get ekki orðið við tilmælum háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), um að taka málið af dagskrá, því að eigi þessi skattur að koma bænum að nokkru gagni til að byggja hæli fyrir, þá þyrfti hans í raun og veru altaf með, til að starfrækja það. Geri jeg því ráð fyrir, að sömu andmæli kæmu síðar, er ætti að fara að svifta bæinn tekjustofninum.

Um íþróttaskattinn vil jeg taka það fram, að það er víst, að íþróttir eru undanþegnar. Eru lögin frá síðasta þingi alveg fullnægjandi lögskýring hvað það snertir. Vona jeg, að háttv. deild láti frv. ná fram að ganga.