09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

106. mál, sandgræðsla

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Nál., sem fylgir máli þessu, er fáort, eins og nú er venja, enda fleiri nefndir en fjhn., sem þykjast hafa nauman tíma.

Þetta frv. gerir ekki miklar breytingar á lögunum frá 1914 um sama efni. Aðeins er því bætt við, að hjer eftir á stjórnin, eða Búnaðarfjelagið, að hafa mann í sinni þjónustu, sem hefir sjerþekkingu sandgræðslu, og er það auðvitað gott. Þá ætlast frv. til, að minna verði borgað úr ríkissjóði til sandgræðslu nú en áður, eða 1/2 í stað kostnaðar. Reyndar hefir það komið í ljós undanfarið, að ríkissjóður hefir sjaldan greitt meira en helming, svo að frv. gerir litla raunverulega breytingu í þessu efni. Þá eru nokkur ákvæði um eignarnám á landi til græðslunnar, ef á þarf að halda, og loks eru sektir fyrir brot hækkaðar að mun frá því, sem áður var.

Landbn. telur enga þessara breytinga varhugaverða, en margar nauðsynlegar, og leggur því til, að frv. verði samþykt.