05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Sveinn Ólafsson:

* Jeg stend upp aðallega til þess að leita mjer upplýsinga, annaðhvort hjá háttv. flm. þessa frv., eða þá hjá hæstv. stjórn, um ýms atriði þessa máls, sem mjer eru næsta óljós. Jeg er helst á þeirri skoðun, að ef það verður úr ráðið að skipa þennan eftirlitsmann, þá þurfi að breyta í einhverju því eftirliti, sem nú er með bönkum og sparisjóðum, Hvaða aðstöðu á þessi bankaeftirlitsmaður t. d. að hafa gagnvart bankaráði Íslandsbanka? Á hann að vera undirmaður þess, aðstoðar- eða kannske yfirmaður bankaráðsins? Og hvernig verður afstaða hans gagnvart Landsbankanum? Á hann að verða vikadrengur Landsbankastjóranna? Alt þetta er á huldu í frv., því hvergi er á þetta drepið. Þá mætti og spyrja, hvaða hæfileika þessi maður ætti að hafa til þess að verða kjörinn til stöðunnar. Á hann að vera lögfræðingur, guðfræðingur skraddari eða skóari? Þannig mætti halda áfram að spyrja um margt, því að alt er þetta á huldu í frv., og mundi því verða langur upp, ef öllu slíku ætti að svara strax. Nei, jeg álít frv. þetta alls ekki þann veg vaxið, að það sje hæft til þess að verða að lögum, að þessu sinni að minsta kosti. Til þess vantar það allan nauðsynlegan undirbúning. Aðalkjarni þessa frv. virðist vera að ákveða laun þessa eftirlitsmanns, sem enginn þekkir eða veit, hvað hann eiginlega á að gera

Háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) tók það rjettilega fram, að eftirlitið væri best komið hjá þeim endurskoðendum, sem nú eru, og um sparisjóðina er það að segja svona yfir höfuð, að þar er hægur nærri samkvæmt núgildandi lögum að láta rannsaka þá, ef þörf þykir vera til þess, en þessi nýi eftirlitsmaður er bæði alt of dýr, og auk þess, eins og nú hefir verið sýnt fram á, allsendis óþarfur.

Jeg stóð nú upp til þess að óska þessara upplýsinga, sem jeg því vænti, að verði á reiðum höndum og sem ljósastar, enda þótt jeg vart geti vænst þess, að þær verði þannig, að jeg sjái mjer fært að snúast í lið með þessu frv. að svo komnu máli.

Þm. (SvÓ) hefir ekki yfirlesið ræðuna.