05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Mjer virðist ádrepa háttv. 1. þm. S.-M. (SvO) koma úr hörðustu átt. Jeg hefi skilið hann svo, að hann legði mikla áherslu á að hafa sem besta vitneskju um hag peningastofnananna í landinu, sbr. áhuga hans á að fá Íslandsbanka rannsakaðan Sú rannsókn, sem átti að framkvæmast af þingnefnd á 15 dögumm gat auðvitað ekki komið að neinu gagni. En þar sem nú stjórnin kemur með frv., sem tryggir ítarlega rannsókn bæði á bönkum og sparisjóðum í landinu, þá bjóst jeg við, að því mundi tekið fegins hendi og háttv. þm. mundi blaða hróðri á stjórnina. En því er nú ekki að fagna; þvert á móti kemur háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) með fyrirspurnir, sem anda mjög kalt á móti frv., eins og þær t. d., hvort þessi maður eigi að vera skraddari eða skóari, guðfræðingur eða eitthvað annað. Háttv. þm. mun nú ekki ókunnugt um, að samskonar eftirlit er víða annarsstaðar, og að heldur er seilst til þeirra manna, sem kunna að bera skynbragð á bankamál, heldur en annara, sem hafa mjög annarleg störf með höndum. Annars má vel vera, að til væru skraddarar eða skóarar, sem gætu annað þessu starfi.

Jeg get ekki ímyndað mjer, að bankarnir amist við þessum eftirlitsmanni. Að minsta kosti hefir stjórn Íslandsbanka tjáð mjer, að hún væri honum mjög meðmælt, sem eðlilegt er, því þegar tortrygnisöldur rísa gegn bankanum, þá er gott að þær geti brotnað á þekkingu þessa sjerfróða eftirlitsmanns, sem á að skipa með þessum lögum.

Ekki þarf annað en að líta á sparisjóðslögin til þess að reka augun í það, að sama sem ekkert eftirlit er með þeim af hálfu hins opinbera. Íhlutunin byrjar þá fyrst, þegar þeir eru komnir svo á knje, að þeir þarfnast hjálpar. En með því eftirliti, sem hjer er á ferðinni, er meiningin að byrgja brunninn áður en barnið er fallið í hann, koma með rækilegu eftirliti í veg fyrir, að sparisjóðurinn komist á knje.

Með þessu frv. sýnir stjórnin ljóslega, að hún vill hafa eftirlit, sem öruggast eftirlit með bönkum og sparisjóðum, en eftirlit, sem ekki spillir lánstraustinu, en er sem liður í þeim sjálfsögðu öryggisráðstöfunum, sem hyggnir menn og gætnir vilja alstaðar hafa um þessar stofnanir.