05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Sveinn Ólafsson:

* Jeg hefi nú að vissu leyti fengið svör við spurningum mínum, en óbeint, enda bjóst jeg ekki við, að þau yrðu ítarleg. Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að jeg hefði fremur ástæðu til að þakka stjórninni en vanþakka það, að hún hefir látið þetta frv. koma fram. En það er misskilningur, að jeg hafi vanþakkað stjórninni; jeg hefi hvorugt gert, en jeg benti á það, að mjer fanst undirbúningur málsins harla lítill og ekki heldur koma skýrt fram, í hverju starf þessa eftirlitsmanns ætti að vera fólgið. Hann segir, að þessi ummæli mín komi úr hörðustu átt, þar sem jeg hafi óskað eftir rannsókn á Íslandsbanka. En það er alt annað, hvort þessi stofnun er athuguð af nefnd eða einum manni er ætlað að hafa alla umsjón með bönkum og sparisjóðum um alt land. Vitaskuld gæti sá maður orðið svo vel valinn, að allir geti borið traust til hans. En það, sem gerir mig myrkfælinn við þetta, er að mjer finst tryggingin með þessu ekki vera eins góð og með bankaráði Þá sagði hæstv. forsrh. (SE), að eftirlit endurskoðenda Landsbankans og bankaráðsmanna Íslandsbanka væri aðeins töluendurskoðun. Jeg hefi satt að segja litið töluvert öðruvísi á og hefi haldið fram að þessu, að eftirlit bankaráðsmanna Íslandsbanka væri alt annað og meira. Að öðru leyti vil jeg ekki leggja neitt kapp á að fella þetta frv.

*Þm. (SvÓ) hefir ekki yfirlesið ræðuna.