05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jakob Möller:

Jeg vil aðeins leiðrjetta misskilning á störfum bankaráðs Íslandsbanka. Það er ekki skipað sem eftirlit eða „revision“, heldur er það í venjulegum skilningi æðsta stjórn bankans. Starf þessa eftirlitsmanns myndi því verða að hafa eftirlit með störfum bankaráðsins. Annars hefi jeg skilið frv. svo, að með því væri verið að efna loforð, sem stjórnin hefði gefið um eftirlit með bönkunum. Jeg vil ekki leggjast á móti því, að þetta loforð verði efnt, en læt mig það að öðru leyti litlu skifta. Þetta ætti raunar að vera óþarft, þar sem bankastjórar eru nú stjórnskipaðir í báðum bönkunum; en sparisjóðirnir eru á hinn bóginn eftirlitslausir, og getur vel verið, að eitthvað sje athugavert við fleiri af þeim en t. d. Eyrarbakkasparisjóðinn.