05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það var aðeins viðvíkjandi fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. (JB) um trygginguna fyrir enska láninu. Jeg skal upplýsa það, að skýrslur yfir veðið, sem bankinn hefir sett ríkinu, eru komnar frá Ed. fyrir tveim dögum, en nefndinni hefir enn ekki unnist tími til þess að vinna úr þeim, en það verður væntanlega gert á morgun. (JB: Verða skýrslurnar ekki birtar?). Skýrslurnar verða ekki birtar. Það er ekki leyfilegt, nema með leyfi skuldunauta bankans.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að minna væri að byggja á eftirliti eins manns en fleiri; en svo er einmitt ekki í þessu tilfelli. Að minsta kosti varð önnur raunin á um þetta í Danmörku í sumar. Þar reyndist það svo, að meira var að byggja á skýrslu bankaeftirlitsmannsins en bankastjórnar Þjóðbankans. Enda er þetta skiljanlegt, því sá maður, sem hefir eftirlit með fleiri stofnunum, fær með því víðtækari reynslu og þekkingu á starfi bankanna yfirleitt. En eftirlit þessa manns, sem frv. gerir ráð fyrir, á að vera í því fólgið að rannsaka raunhæfilega peningastofnanirnar, og ekki hlaupa til stjórnarinnar með alt það, sem hann fær vitneskju um, nema sjerstaklega sje ástæða til þess að grípa inn í starf einhverra þessara stofnana.