05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Stefán Stefánsson:

Hæstv. forsætisráðherra (SE) talaði um það, að endurskoðun þessa eftirlitsmanns ætti að vera „kritisk“ endurskoðun. En ef alókunnur maður á að hafa slíka „kritiska“ endurskoðun með höndum á sparisjóðum úti um land, þá kemur mjer það líkt fyrir sjónir og um bankarannsóknina á dögunum, að það gæti ekki orðið að miklu gagni, og langt frá því, að það geti orðið eins þýðingarmikið eins og þegar þaulkunnugir menn heima í sveitunum, þar sem sparisjóðirnir eru, hafa eftirlitið á hendi.

Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, að við vissum ekkert um sparisjóðina. En hvers vegna þarf að koma nú með þessa yfirskoðun á þeim, ef ekkert er við þá að athuga? Og hverjum ætti að vera annara um, að sparisjóðirnir væru í lagi, en stjórnum þeirra og ábyrgðarmönnum? Á hverjum sparisjóðsfundi, þar sem jeg þekki til, eru lagðar fram skýrslur um allar lántökur og tryggingar fyrir þeim, og er farið yfir þær af öllum ábyrgðarmönnum, og jafnvel að endurskoðendunum viðlátnum. Og sje þeirri venju fylgt, þá hefir þessi maður nauðalitla þýðingu, að því er mjer skilst. Og enn minna verður að byggja á eftirliti hans, ef rannsóknin á hverjum sparisjóði á ekki að taka nema einn eða tvo daga, eins og hæstv. forsrh. (SE) virtist gera ráð fyrir. Jeg er hræddur um, að hann yrði þá að sjá margt með annara augum. En ef fyrir byggja ætti alla hugsanlega tortrygni, þá hygg jeg, að mundi þurfa nokkra nýja embættismenn á voru landi. Og ekki fæ jeg skilið, að það geti breytt nokkuð áliti manna í sveitunum, þó þessi maður líti þangað öðruhverju.

Loks vil jeg spyrja hæstv. stjórn að því, hvort fyrirmælum laga frá 1915, um sparisjóði, hafi verið fylgt, og þá sjerstaklega ákvæðum 19. gr. og sektarákvæðum laganna.