07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi brtt. á þskj. 584, og vil þess vegna segja nokkur orð. Jeg er sömu skoðunar og forgöngumenn þessa frv., að ástæða sje til að hafa eitthvert eftirlit með bönkum og sparisjóðum, umfram það, sem nú á sjer stað. Geri jeg ráð fyrir, að frv. sje til orðið vegna þessarar eftirlitsþarfar. En jeg get ekki fallist á, hvernig þessu á að koma fyrir eftir frv., og hefi jeg því borið fram brtt.

Að skipa einn allsherjareftirlitsmann með bönkum og sparisjóðum í landinu er ekki heppileg aðferð. Jeg hygg, að þetta eftirlit væri betur trygt með því að semja heimildarlög, þar sem ríkisstjórninni sje heimilað að láta framkvæma nauðsynlegt eftirlit, þegar henni sýnist ástæða til, og á þann hátt, sem hún telur best henta í hvert sinn. Jeg get hugsað mjer, að eftirlitið verði veikt í höndum þessa eina allsherjareftirlitsmanns. Það þarf að vanda betur til þessa starfs en svo, ef almenningur á að geta treyst því. Þó að stjórnarvöldin velji manninn forsvaranlega vel, þá er ekki hægt að gera slíkar kröfur til eins manns, að starf hans geti komið að tilætluðum notum; það gæti ekki orðið að sama skapi nákvæmt, sem það yrði víðtækt og yfirgripsmikið.

Peningamálin eru viðkvæm málefni (vekja oft tortrygni; og tortrygnin getur gert starf þessa yfirskoðunarembættismanns verra en ekki neitt, þó hann væri mjög vel valinn. Ef landsstjórnin sjálf, sem hefir yfirumsjón með peningamálunum og bönkunum, telur þörf á að endurskoða og athuga bankana, þá hefir hún þau mál í eigin höndum og má ekki aðeins, heldur á að rannsaka bankana sjálf. Eins og mönnum er kunnugt, þá er mörgum sparisjóðum þannig stjórnað, að ekkert er við þá að athuga. En því miður eru til sparisjóðir, sem brýn ástæða er til að endurskoða, og hefir áður verið nefnt dæmi þess úr mínu kjördæmi. Það er sparisjóður Árnessýslu á Eyrarbakka. Væri nú kominn ákveðinn yfirskoðunarmaður, sem þekti lítið til staðhátta og fjárhags manna í Árnessýslu, og væri t. d. Norðlendingur, þá ætti hann mjög erfitt með að framkvæma eftirlit með sparisjóðnum þar eins vel og kunnugur maður gæti gert. Að mínu viti væri heppilegra að heimila stjórninni gaumgæfilega rannsókn, er hún láti framkvæma á sparisjóðum, er ástæða þykir til, á sem tryggilegastan hátt í hvert sinn. Þar hefir einmitt kunnugleiki á hverjum sparisjóði um sig mikið að segja, og eins og jeg nefndi til dæmis, að Norðlendingur, ókunnugur öllu hjer syðra, væri látinn rannsaka Eyrarbakkasjóðinn, gæti samskonar annmarki dregið úr gildi rannsóknar á sparisjóðum t. d. á Húsavík eða Sauðárkróki, ef þessi eftirlitsmaður yrði Sunnlendingur, ókunnur öllu þar nyrðra. Nei, það þarf að framkvæma sparisjóðaeftirlitið af manni eða mönnum, sem eru vel kunnugir í því hjeraði, sem rannsókn er framkvæmd í. sínum í hvert skiftið, eftir því er tryggilegast þykir, ef slíkt á að koma að verulegum notum og vera meira en embættistildur.

Stjórnmálin eru svo mjög á hverfanda hveli, að þó að sú stjórn, sem nú er við völd, skipi, ef til vill, góðan mann í þetta starf, þá getur næstkomandi stjórn litið öðruvísi á manninn og starfið, enda þótt samviskusamlega væri að farið í öllum atriðum.

Eins og brtt. ber með sjer, þá eiga stofnanirnar sjálfar að greiða kostnaðinn við eftirlitið, í hvert sinn sem það fer fram. Um bankana er það að segja, að jafneðlilegt og sjálfsagt sem það er, að nákvæmt og víðtækt eftirlit sje haft með allri stjórn þeirra og framkvæmdum, eins sjálfsagt er það, svo sem jeg drap fyr á, að það sje sjálf landsstjórnin, sem framkvæmir eftirlitið, hvort heldur bankarnir eru 2 eða fleiri. Það er ekki það langt milli bankanna og stjórnarráðsins, að þetta ætti að vera vandkvæðum bundið. Eða hvað er til fyrirstöðu, að stjórnin framkvæmi þetta sjálf og milliliðalaust? Reynslan hefir sýnt, að því fleiri, sem blandast inn í slíkt mál, því vitlausara verður það.

Það var felt hjer í háttv. deild frv. um að fækka ráðherrum, svo að búast má við að þeir verði 3 áfram fyrst um sinn, og ætti þá ekki að vera þörf á því að vera að ljetta af þeim störfum, sem jafnsjálfsögð eru sem þessi, eftirlit með peningastofnunum í landinu, störfum, sem þeim eru tvímælalaust ætluð. Eins ætti það að vera með sparisjóðina, að ekki sje stofnað neitt nýtt embætti til þess að framkvæma eftirlitið með þeim, heldur á að nefna til þess menn í hvert skifti, sem þörf krefur.

Þá var annað atriði, sem vakti fyrir mjer, og það var kostnaðarhlið málsins. Ef brtt. mínar yrðu samþyktar, væri það mikill beinn sparnaður fyrir ríkissjóð.

Með frv. er gert ráð fyrir nýju, hátt launuðu embætti, og enda þótt sá kostnaður endurgreiðist af þeim stofnunum, sem eftirlitið er haft með, þá ber alveg að sama brunni með það, því fje banka og sparisjóða er líka fje landsmanna, og hvort tekið er úr hægri eða vinstri vasanum, kemur í sama stað niður. Jeg geri ráð fyrir því, að enda þótt til og frá sje nú pottur brotinn, þá þurfi þó ekki að rannsaka svo mikið árlega, að kostnaður myndi nema þessu háa árskaupi, og svo er sjálf landsstjórnin hjer í Reykjavík og hefir eftirlit með bönkunum. Þó ekki væri nema þessi fjársparnaður, þá álít jeg það verulega ástæðu til þess að hallast að brtt. minni nú á þessum tímum, er menn vilja stuðla sem mest að því að fækka embættum, hvað þá að fjölga þeim ekki.

Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort stjórnin getur nú, samkvæmt ákvæðum sparisjóðslaganna 1915, látið framkvæma svo ítarlega rannsókn á sparisjóðum, sem þörf kann að krefja. Ákvæði þeirra laga eru að minsta kosti ekki ótvíræð í þeim efnum. Mjer er líka kunnugt um, að þegar erfiðleikarnir komu fyrir sparisjóð Árnessýslu, þá var leitað aðstoðar hæstv. stjórnar, en þar sem hún hefir enn þá ekkert gert til að rannsaka sparisjóðinn eða bæta úr vandræðum hans, þá geri jeg ráð fyrir því, að þessi frestun, sem orðið hefir, sje með fram af því að stjórnin telji sjer ekki heimilt að láta fara fram rannsókn samkvæmt gildandi lögum, og væri því ákveðnari heimild síst úr vegi.