11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jónas Jónsson:

Jeg leyfi mjer að endurtaka það, sem jeg hefi áður haldið fram, að mál þetta geti gjarnan beðið næsta þings, vegna þess, hve seint það kom fram, og eins hins, að ekki hefir verið sannað fyllilega gildi þessarar ráðstöfunar. Þó að eftirlit með bönkum og sparisjóðum sje að vísu nauðsynlegt, þá hafa ekki verið leidd nægileg lök að því, að þetta fyrir komulag sje heppilegt. Ef þessi eftirlitsmaður á bæði að líta eftir bönkum og sparisjóðum, þá virðist það ósamrýmanlegt. Maður, sem trúað yrði fyrir að líta eftir bönkunum, hlýtur að verða roskinn maður og reyndur, líklega ekki minna en fimtugur. Mundi torvelt að fá slíkan mann, ef hann jafnframt ætti að vera á sífeldum ferðalögum milli sparisjóðanna. Þannig hygg jeg, að stærsti gallinn á frv. sje, að ekki verður unt að sameina þetta tvent, eftirlit með bönkum og sparisjóðum. Til þess að framkvæma eftirlit með sparisjóðum væri heppilegast að hafa mann á ljettasta skeiði, sem ætti gott með að ferðast mikið og jafnt sumar sem vetur.

Annars var tekið fram í háttv. Nd., að tvískinnungur væri í frv. þessu, þar sem því er ætlað að ná til Landsbankans, sem er lögum samkvæmt háður daglegu eftirliti stjórnarinnar. Má því segja, að frv. komi að formi til ofan í eldri lög að þessu leyti.

Verð jeg að álíta, að æskilegast væri, að þetta dýra embætti yrði ekki stofnað nú á þessu þingi, nema full vissa væri um mjög mikinn árangur.

Jeg get ekki greitt frv. atkv., af því að jeg er óviss um, að það nái tilgangi sínum, en ekki af því, að jeg álíti ekki nauðsyn á auknu eftirliti með bönkum og sparisjóðum; enda hefi jeg með öðru frv. sýnt fram á betri leið til að ná því marki.

Ef frv. þetta er fram komið vegna sparisjóðsins á Eyrarbakka, þá vil jeg benda því til hæstv. forsrh. (SE), að enginn vafi er á því, að stjórnin getur framkvæmt þar eftirlit án sjerstakra laga, og væri nóg, ef hún sendi einhvern trúnaðarmann sinn austur í þeim erindagerðum, og best sem fyrst.

Þætti mjer æskilegast, að hæstv. stjórn legði ekki sjerstakt kapp á að koma frv. þessu fram nú, en rannsakaði málið til næsta þings.