11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hefi nokkru minna álit á þessu frv. en hæstv. forsrh. (SE) og hv. 4. landsk. þm. (JM). Það er undarlegt, að hæstv. forsrh. (SE) skuli ekki hafa lagt frv. fyr fyrir þingið, ef um svo mikla nauðsyn er að ræða á stofnun þessa embættis, sem heyra má á honum. Eða hefir nokkuð komið fyrir á þinginu, sem ýtt hefir undir frv. þetta? Það er rjett, að stjórnin getur athugað banka og sparisjóði, ef henni þurfa þykir. En þessi maður á víst að rannsaka jafnt þá sparisjóði, sem ekkert er athugavert við — og hefir aldrei verið — sem hina, svo þeir geti tekið þátt í að borga hin háu laun.

Hæstv. forsrh. (SE) tók það fram, að þetta væri mjög einfalt mál. Þetta sama tók hann fram við 1. umr. Það er líka venja, að frá hans sjónarmiði sjeð sjeu málin mjög einföld. En það er það nú líka frá mínu sjónarmiði um þetta mál. Það er bara að stofna nýtt embætti, taka í það mann og láta hann fá laun.

Þá var það hv. 4. landsk. þm. (JM), sem sagði, að hann væri mjög ánægður með þetta, enda væri það gamalt flokksmál. En þó virtist mjer koma fram hjá honum, að ekki væri vert að dást svo mjög að þessu, fyr en maðurinn væri valinn í það. En það er nú einmitt það, sem jeg er hræddur um, að stjórninni geti tekist það í meðallagi vel í fyrsta, annað eða jafnvel þriðja sinn. Það er vaninn, að það gengur sæmilega að stofna embættin, og eins býst jeg við að verði um þetta. En á hitt vill fremur bresta, að í þau sje skipað meira en í meðallagi vel oft og tíðum.