11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Þótt frv. kæmi ekki fyr fram en þetta, þá hefir það þó lengi verið undir yfirvegun, og á einkafundi, sem hv. 1. þm. Húnv. (GÓ) var kunnugt um, í þinginu í vetur, talaði jeg um þetta eftirlit. En að það kom ekki fyr fram, var af því, að sá ráðherra, sem nú er farinn, var lítið hvetjandi til þess, að málinu yrði þannig skipað. Hv. þm. sagði, að gert væri ráð fyrir ákveðnum manni í þetta embætti. (GÓ: Jeg sagði það alls ekki!). En það er rangt; annars er gott, að þetta kom fram, því að jeg hefi heyrt, að reynt hafi verið að spilla fyrir málinu með því að nefna til hina og aðra, sem stjórnin ætti að hafa fyrirhugað embættið. Þá kom fram hjá sama háttv. þm. (GÓ), að hann treysti stjórninni ekki til að skipa í þetta embætti. Það liggur nú fyrir vantraust á stjórninni, svo það er nú tækifæri til að losa sig við hana, og kæmi þá væntanlega ný stjórn, sem betur mætti treysta. (JJ: Það er best að bíða eftir nýju stjórninni!).