12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jónas Jónsson:

Jeg kann ekki við, að mál þetta gangi hjer í gegnum 3. umr. án þess nokkuð sje um það rætt, þó að umræður muni reyndar lítil áhrif hafa á úrslit þess.

Mjer sýnist frv. þetta vera knúð fram meira af kappi en forsjá. Það kemur seint fram og án annars sýnilegs undirbúnings en þess, að meiri hl. þingsins leit svo á, að þingið ætti sem allra minst að vita um Íslandsbanka. Önnur ástæða er sú, að einn sparisjóður hefir komist í vandræði og ekki verið rannsakaður enn. Þetta er alt og sumt, sem gefur tilefni til stofnunar þessa embættis nú.

Þau ummæli mín hafa ekki verið hrakin, að erfitt muni verða að fá mann, sem fær væri um að hafa eftirlit bæði með bönkum og sparisjóðum. Þannig ber frv. í sjer meingalla, sem gerir það gagnslítið í framkvæmd.

Annaðhvort verður að taka roskinn mann og reyndan, sem verður þá stirður til ferðalaga, eða þá ungan mann, sem fær væri um að ferðast mikið, en sem þætti aftur á móti ekki hafa nægilega lífsreynslu til þess, að örugt mætti virðast að fela honum svo vandasamt starf sem eftirlit með bönkunum.

Þá er ein röksemd, er gerir frv. ekki fýsilegra. Þessi embættismaður hlýtur aðeins að hafa neikvætt eða „negativt“ vald og viðvörun hans nýtur sín ekki fyr en löngu eftir á, þannig að það, sem hann kynni helst að finna að, verður ekki læknað, aðeins gagnrýnt eftir á, og það jafnvel þó að maðurinn verði mjög hæfur í þetta embætti.

Fyrirmyndin að frv. þessu er sennilega komin frá Danmörku, eins og svo margt annað, og af því að þar hefir Green bankaeftirlitsmaður getið sjer frægðar orð fyrir hlutdeild þá, sem hann átti í því að koma upp ólagi því, sem var á fjárreiðum Landmandsbankans. En þess er vert að gæta, að þrátt fyrir það, að þessi maður var óvenjufær um að hafa þetta eftirlit á hendinni þá tókst bankanum samt að fá sjúkdóm sinn svo þroskaðan, að slíks eru engin dæmi á Norðurlöndum.

Við skulum hugsa okkur, að embætti þetta hefði verið stofnað hjer 1918. Eru nokkrar líkur til, að hrun Íslandsbanka hefði verið fyrirbygt fyrir því? Eru nokkrar líkur til þess, að enda þótt eftirlitsmaður hefði komið við og við í bankann, þá hefði fiskhringnum, Helga Zoega & Co., Lofti frá Sandgerði o. s. frv. ekki verið lánaðar allar miljónirnar? Jeg held ekki. Þessi eftirlitsmaður getur ekki gert við ráðstöfunum bankastjórnarinnar. heldur aðeins „kritiserað“ eftir á, og getur það eitt vitaskuld komið að gagni; en aðallega vantar oss skynsamlega gætni, en þó skapandi afl í sjálfar stjórnarráðstafanir bankanna. Og þó að bankastjórnirnar vildu nú bera ýmsar ráðstafanir undir eftirlitsmann þennan, þá verður ekki svo gott að koma því við, ef hann á að vera á sífeldum ferðalögum. Ef Íslandsbanki t. d. hefði í hyggju að lána fje í einhverja stórfelda „síldarspekulation“ og vildi bera það undir eftirlitsmanninn, en hann væri þá að endurskoða sparisjóð austur í Hornafirði, þá verður ekki þægilegt að ná í hann, svo að hann fái sagt álit sitt, bygt á nauðsynlegum rannsóknum. Sem sagt, bankastjórnirnar myndu ekki leita álits eftirlitsmannsins fyrirfram, heldur hefði hann sitt orð að segja eftir á. Hann mundi verða, eins og Green var í Danmörku. nokkurskonar brunavörður, er fyrst kemur á vettvang, þegar kviknað er í.

Jeg skal þá geta þess í þessu sambandi, að þegar Green kærði Landmandsbankann, þá áleit hann fyrst, að tapið næmi ekki nema 25 milj. kr., en við nánari rannsókn hefir komið í ljós, að það er ekki undir 300 milj. kr. Ber alt að sama brunni: eftirlitið verður aðeins meira og minna ónákvæm „kritik“ eftir á, en nær ekki til aðalmeinsins, sem er að finna í framkvæmdum bankastjórnanna. Jeg álít það óþarft, enda er það jafnvel ábyrgðarhluti að stofna þetta embætti að órannsökuðu máli, — og sjerstaklega, ef það yrði aðeins bitlingur í höndum stjórnarinnar.