12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var að draga upp mynd af þessum bankaeftirlitsmanni, en það verður varla málefninu til falls, því að það er alkunnugt, að listamenn „karigera“ aðeins þá menn, sem mikið er varið í. Og þessi teikning sýnir því. Hvað stórum augum strax er litið á þetta embætti. Það hefir eitt atriði komið hjer fram, sem er merkilegt. Í einu orðinu er sagt, að stjórnin sje að stofna embætti fyrir einhvern ákveðinn mann, en í öðru orðinu er henni ámælt fyrir það, að hún sje ekki búin að ákveða manninn.

Viðvíkjandi setningu bankastjóranna í Íslandsbanka vil jeg benda á það, að það er víðar en hjer, sem seinlegt er að finna menn. Í Danmörku var marga mánuði verið að fá nýja bankastjóra í Landmandsbankann. Aðalatriðið er, að mennirnir sjeu góðir, og veit jeg ekki annað en að setning þessara tveggja manna hafi mælst vel fyrir.

Þá var eitt, sem líka bólaði á í hv. Nd., að það væri goðgá, að þessi eftirlitsmaður ætti líka að líta eftir Landsbankanum. En jeg vil alvarlega vara menn við að láta þetta koma fram, því svo mætti þá álíta, að eitthvað það væri við Landsbankann, sem þyldi ekki rannsókn. (JJ: Það er betra eftirlit með honum!). Jeg tel þetta mjög varhugavert. (JJ: En ríkisbankinn í Kaupmannahöfn?). Þó það sje þar, þá þarf ekki að vera svo hjer.

Til þess að hægt sje að rannsaka hag einhvers banka „kritiskt“, þá þarf til þess mann, vel kunnugan högum þeirra manna, sem eiga skifti við stofnunina. En slíkrar þekkingar verður naumast krafist af landsstjórnum, sem koma og fara, oft með mjög stuttu millibili, og þótt þær kunni að hafa sjerþekkingu á þessu sviði, þá er tími þeirra þó svo takmarkaður af öðrum stjórnarstörfum, að útilokað er, að þær geti sökt sjer svo djúpt niður í slíka rannsókn, sem með þyrfti, ef að fullum notum ætti að koma. En þetta mundi fastur eftirlitsmaður eiga hægt með. Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði í ræðu sinni, að hann hefði getað verið landsstjórninni sammála, hefði hún byrjað með því að ráða mann um skemmri tíma með samningi, og sýnir þetta berlega, að hann er í raun og veru hliðhollur frv., og það verður heldur ekki sagt um neinar þær mótbárur, sem hjer hafa fram komið gegn frv., að þær sjeu þungar á metunum. Og satt að segja undrast jeg mjög yfir þeim ummælum, sem háttv. 5. landsk. þm. hefir nú frammi, eftir að hann áður hefir barist fyrir rannsókn á einni peningastofnuninni hjer, því að tilgangur minn með þessu frv. er einmitt sá, að tryggja nákvæmt eftirlit með öllum peningastofnununum.