12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Guðmundur Ólafsson:

Jeg tek það enn einu sinni fram, að það getur ekki verið langt síðan hæstv. forsrh. (SE) datt þetta nanðsynjamál í hug, því að þá hefði hann flutt frv. fram í byrjun þingsins. En í stað þess hefir hæstv. stjórn nú í þinglok fensið einn hv. þm. í Nd. til þess að flytja það, og enda þótt málið sje alveg nýtt og sannað sje, að það er illa undirbúið, fjekk það þó ekki að fara til nefndar, svo að engin nákvæm rannsókn hefir farið fram á frv. hjer í hv. Ed.

Hæstv. forsrh. (SE) hefir látið ósvarað þeirri spurningu minni, hversu marga sparisjóði hann hugsaði sjer, að eftirlitsmaðurinn gæti rannsakað á ári hverju. Ef þeir yrðu aðeins fáir, þá tel jeg, að eftirlitið muni verða mjög ófullnægjandi og ekki ná tilgangi sínum, en auk þess álít jeg, að þetta eftirlit sje algerlega óþarft, hvað flesta sparisjóði snertir. Jeg veit ekki betur en að hin besta regla sje á stjórn sparisjóða hjer á landi yfirleitt, að einum eða tveimur undanteknum, og landsstjórnin hefir í lögum heimild til þess að hefja rannsókn, hvenær sem henni þurfa þykir eða óskað er eftir.

Jeg fjekk enga skýringu á þessu, og bendir það óneitanlega í þá átt, að hæstv. stjórn hafi ekki hugsað málið mikið.

Hæstv. fjrh. (KIJ) lýsti því yfir, að hann hefði ekki enn fengið augastað á neinum, sem hann vildi veita þennan starfa, og bendir það, ásamt öðru, í þá átt, að þetta þjóðráð og mikla nytjamál sje aðeins nýskeð komið inn í höfuðið á hæstv. stjórn. Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að maður sá, sem hefði þetta eftirlit með höndum, þyrfti að vera sjerstaklega vel kunnugur hag þeirra manna, sem við stofnanirnar skiftu. En þegar farið var fram á, að rannsakaður yrði hagur Íslandsbanka, þá var talið nægilegt, að fleygt yrði í eina hv. þingnefnd skýrslu, þar sem taldir væru upp víxlar þeir, sem enska lánið er trygt með, en talið algerlega óþarft, að þingið fengi nokkra vitneskju um, hvernig þeir menn, sem selt hafa þessa víxla, standa að öðru leyti við bankann. Jeg get því hvorki sjeð, að þetta mál sje nauðsynjamál, nje heldur, að hægt sje að búast við góðum árangri, ef það nær fram að ganga. Það helsta, sem upp úr því hefst, verður að skattleggja tilfinnanlega alla minni sparisjóði í landinu.