17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

142. mál, sameining póstmeistara og stöðvarstjóraembættið á Akureyri

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Frv. það, sem hjer lá fyrir deildinni um að sameina ritsímastjóra- og póstmeistarastörfin á Akureyri, var ekki fært að framkvæma. Hjer á landi er aðeins einn ritsímastjóri, og hann er í Reykjavík, svo að ekki var þægilegt að gera hann að póstmeistara á Akureyri. Flutningsmenn hafa sem sje ekki athugað það, að maðurinn, sem við er átt í frv., heitir stöðvarstjóri, en ekki ritsímastjóri.

Eins og nál. ber með sjer, þá hefir allsherjarnefnd rætt þetta mál við aðalpóstmeistara og sömuleiðis borið það undir ritsímastjóra. Og í samræmi við álit þeirra hefir nefndin borið þetta frv. fram.

Aðalpóstmeistari hefir ekki viljað ganga inn á þessa samsteypu, nema hann fengi póstafgreiðslumann á Akureyri. Landssímastjóri hefir líka farið fram á að fá aukningu á sínu starfssviði, eins og sjá má á þskj. 371. Þar er farið fram á, að fenginn sje símafulltrúi, með sömu launum, sem ákveðin eru varðstjóra við ritsímann.

Hjer dragast því 400 kr. frá þeirri upphæð, sem gert var ráð fyrir, að frv. sparaði. En það er samt sparnaður, og því rjett að láta þetta ganga fram. En auk þess, að rjett er að gera þetta á Akureyri, þá þótti allshn. líka rjett, að það næði til Ísafjarðar, og hefir því komið fram með frv. til heimildarlaga.

Nefndin hefir tekið það fram, að henni þykir ástæða til að ætla, að sameina mætti þessar stöður víðar á landinu. En um það þyrfti þá að vera samkomulag milli aðalpóstmeistara og landssímastjóra. Finst nefndinni því ástæða til að reyna þetta.

En ef þetta kæmi víða til framkvæmda, þá væri nauðsynlegt, að landið ætti hús á stöðunum fyrir þessar stofnanir. Að því myndi verða sparnaður, er til lengdar lætur, því flutningur á tækjum landssímans á milli húsa er bæði dýr og erfiður, þegar nýr maður tekur við.

Jeg álít því æskilegt, að póst- og símastöður þessar sjeu sameinaðar, er annað sætið losnar, og vil leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh. (KIJ), hvort hann muni ekki nota slík heimildarlög nú, þegar póstmeistarastarfið á Akureyri losnar.