22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Um þetta mál er það fyrst að segja, að það tafðist svo lengi í Nd., að nú er þegar komið í eindaga með afgreiðslu þess, ef það á að koma að notum á þessu ári, sem var víst upphaflega tilætlun stjórnarinnar. Þar af leiðir, að jeg tel mjer ekki skylt að ræða málið jafnmikið eða á svo margvíslegan hátt, sem gert var í Nd. Jeg geri líka ráð fyrir, að háttv. þingdeildarmenn hafi gert sjer ljósa grein fyrir frv. eins og það nú liggur fyrir. Skal því ekki fara mörgum orðum um það nje brtt. nefndarinnar.

Fyrst er þá skattstiginn. Hann er lægri en í gildandi lögum, en aftur hærri en í frv. stjórnarinnar. Hjer er þó ekki um hækkun að ræða frá stjórnarfrumvarpinu, heldur fyrirkomulagsatriði. Stjórnin gerði ráð fyrir í frv. sínu, að frádrátturinn fyrir nef hvert hyrfi í burtu, en í þessu frv. sem liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að hann haldist. Sje tekið tillit til þess. Þá verður skattstigi þessi mjög svipaður skattstiga stjórnarfrv.

Þá er tillaga nefndarinnar, að nýr liður bætist aftan við 11. gr. Í Nd. var gerð sú ráðstöfun, að aukaútsvör skyldu dregin frá áður en skattur væri reiknaður út. Nú hefir nefndin viljað bæta því við, að tekju- og eignarskattur væri líka dreginn frá.

Jeg lít svo á, að ekkert atriði geri þennan skatt eins óvinsælan eins og það, að borga skattinn tvöfaldan, skatt af skattinum, bæði af útsvari og tekju- og eignarskatti. án þess að skattgreiðandi hafi þessar fjárhæðir til umráða. Um þetta hafa verið mestar umkvartanirnar. Mjer hafa fundist þessar umkvartanir eðlilegar og býst við, að tillögur til breytinga á þessu fái góðan byr hjer í deildinni, jafnmikið og talað hefir verið um hina tvöföldu skatta nú á síðustu árum. Nefndin hefði að sjálfsögðu gert stærri og víðtækari breytingar á skattalögunum, ef tíminn hefði ekki verið svona naumur, en frv. varð að hraða og halda því í sem líkustu formi og það kom frá Nd., ef það átti að koma að notum í þetta sinn.

Aðalatriðið er, að frv. þetta, ef nær fram að ganga, veitir nokkra linun á skattinum. Tel jeg það vel farið. Við höfum fyrir þungan beinan skatt, þar sem eru aukaútsvörin. Þegar við þau bætist tekju- og eignarskatturinn, þá verður það mjög tilfinnanlegur skattur.

Eins og kunnugt er, þá verður frádráttur fyrir börn yngri en 14 ára eftir þessu frv. 500 kr., í stað 300 kr. í núgildandi lögum.

Vegna þess að ágreiningur hefði getað orðið um það atriði. hversu lög þessi skyldu gilda lengi, þá varð nefndin ásátt um það að ákveða engan vissan tíma. heldur láta lögin gilda óákveðinn tíma. Er það þá algerlega á valdi þings og stjórnar, hvenær þau vilja breyta þeim; enda er reynsla fengin fyrir því, að lög, sem hafa ákveðið tímatakmark, eru framlengd ár frá ári, svo sem er með útflutningsgjaldslögin. Þetta frv., þó samþykt verði, útilokar ekki, að deildin geti á þessu þingi tekið aðalfrv. fyrir og breytt því eftir vild sinni.

Þá hefi jeg gert nokkra grein fyrir frv. og vona, að háttv. þingdeild taki vel undir till. nefndarinnar.

Um hina fjárhagslegu hlið málsins, þá er að ríkissjóði veit, er ilt að gera ábyggilega áætlun. Ef til vill getur hæstv. fjrh. (MagnJ) gefið einhverjar bendingar um það atriði, en jeg efast þó um, að það sje hægt, svo ábyggilegt sje, að þessu sinni. En hvort það eru 100 þús. eða 200 þús. kr., þá munar þó töluvert um hækkunina.