22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg get ekki stilt mig um að telja ýms tormerki á frv. þessu, eins og nú er komið, sjerstaklega þó hversu síðbúið það verður. Skattanefndir munu nú margar búnar að ljúka við skattskýrslurnar. Og þó frv. þetta yrði nú þegar að lögum, þá gætu skattanefndir samt varla verið tilbúnar að leggja fram skýrslurnar 1. apríl, eins og lögin gera ráð fyrir. Jafnvel getur orðið erfitt að koma lögunum fyrir þann tíma í afskektar sveitir. Í aðalskatthjeruðum, eins og Reykjavík, er fresturinn lengri, og kemur þar því ekki í bága.

Þá má gera ráð fyrir, að lög þessi komi of seint til þess að undirskattanefndir geti dregið frá útsvar og eignar- og tekjuskatt, sem nú er gert ráð fyrir í frv. Er því ekki um annað að gera fyrir menn en að bera sig upp við yfirskattanefndirnar og láta þær lagfæra það.

Jeg tel breytingarnar, sem orðnar eru á frv., síst til bóta. Þá verður þetta allmikill tekjumissir fyrir ríkissjóð, að útsvör og tekju- og eignarskattur dregst frá. Hvað mikill er ekki hægt að segja. Hjer í Reykjavík nemur frádráttur þessi á 3. miljón kr. af skattskyldum tekjum. Hvað mikill skattur af því yrði, er ekki gott að segja, því hann lendir á hæstu prósentunni. Sje gert ráð fyrir að meðaltali 10% af þessari upphæð, sem skatturinn af henni næmi, þá yrði það á 3. hundrað þús. kr. bara hjer í Reykjavík. Það út af fyrir sig að lækka skattinn er ekki frágangssök, ef tekið er tillit til lækkunarinnar við afgreiðslu skattafrumvarpa, sem til meðferðar eru, t. d. útflutningsgjaldsins, svo ekki leiði til hins sama þar, að lækkað verði.

En þrátt fyrir öll tormerki, sem jeg hefi talað um, þá er þó sá kostur við frv., að það lækkar gjaldið á þurftartekjunum, eða lægri tekjum, eins og fyrir mjer vakti, er jeg lagði frv. fram. Vil jeg þess vegna eigi mæla móti því, að það verði samþykt.