04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Mjer þætti gaman að mega vænta þeirrar stjórnar, sem hefði á móti tekjunum. Er það ætíð viðkvæðið hjá stjórn, að það þurfi að fá tekjur, svo að það er lítil sönnun þess, að þörf sje á svona háu útflutningsgjaldi.

Háttv. 2. þm. N.-M. (BH) sagði, að óhjákvæmilegt væri að auka tekjurnar, því að tekjuskatturinn hefði minkað. En þetta er ekki rjett. Ef athuguð eru fjárlögin, þá sjest, að 1922 var hann áætlaður 700000 kr., 1923 900000 kr., en nú er hann áætlaður 1000000 kr. Mun það hafa ruglað háttv. þm. (BH), að tekjuskatturinn fór fram úr áætlun 1922 og varð 1500000 kr. Er auðsætt að ef þessi áætlun tekjuskattsins stenst, þá er öllu óhætt.

En þó það sje fagur búmannsbragur að hafa tekjuauka, þá tel jeg það algerlega óforsvaranlegt, ef það fæst ekki með öðru en að íþyngja landsmönnum með svo miklum sköttum, að þeir fá ekki undir risið.

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) sagði, að menn yrðu að athuga, að í fjárlögum væri ekki áætlað fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum eftir fjáraukalögum, öðrum lögum eða þál., og taldi, að þau mundu verða minst 1 miljón kr. En hjer er þess að gæta, að þessi útgjöld eru áætluð alt of hátt, og auk þess er aðgætandi, að þessi útgjöld fara mest eftir því, af hve miklum tekjum er að taka. Tel jeg sjálfsagt, að þessi útgjöld sjeu spöruð sem mest.

En annars þætti mjer vænt um, að hv. frsm. meiri hl. (MG) vildi segja mjer, hvaða lög og þál. það eru, sem öll þessi útgjöld á að borga eftir, og ekki eru þá áætluð fyrir í fjárlögum.