04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get auðvitað ekki sagt háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), hvaða lög það muni verða, sem valda útgjöldum 1924. En jeg veit, að það eru mörg lög nú, sem ýmist heimila eða skylda ríkissjóð til að borga ákveðinn kostnað með vissum skilyrðum, en hvað þetta kann að verða mikið, er ekki gott að segja.

Eitt af því, sem til útgjalda kemur á næsta ári, er kostnaðurinn við bygginguna á Kleppi, sem verður að færa undir 24. gr. (MP: Það er fyrirskipað með lögum að taka lán til þess). Ef þá leið á altaf að fara, að taka lán, ef eitthvað er framkvæmt, verður það til þess, að tekjur landsins ganga að síðustu allar í afborganir og vöxtu.

Háttv. þm. (JakM) sagði, að það væri aðhald fyrir stjórnina, að fjárlög væru með tekjuhalla, og þá mundi ekki verða miklu varið til að borga eftir einstökum lögum. En þetta er ekki rjett; það er jafnrík skylda til að greiða þau útgjöld, er sjerstök lög mæla fyrir um. hvort sem fjárlög eru með tekjuhalla eða ekki.

Háttv. þm. (JakM) sagði, að það væri rangt hjá háttv. 2. þm. N.-M. (BH), að tekjuskatturinn hefði lækkað. En þetta er rjett. eftir því sem háttv. 2. þm. N.-M. (BH) skýrði það. Tekjuskatturinn verður lægri í ár en hann var síðastliðið ár. Má vera, að hann nái áætlun, en aðalatriðið er það, að skatturinn fer ekki fram úr áætlun. Er það mjög hættulegt, ef tekjurnar eru áætlaðar svo háar, að þær fara ekkert fram úr áætlun því að altaf má búast við, að gjöldin geri það; og hvar á þá að taka mismuninn? Flaut lengi á því, að tekjurnar fóru fram úr áætlun, en nú er engin von til þess. Er það mjög varhugavert að áætla ekkert fyrir útgjöldum eftir 24. gr., er hljóta að koma.

Grunar mig, að á næsta þingi verði samin fjáraukalög fyrir 1924, sem verði ekki lægri en þau, sem nú eru á ferðinni.