05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg á hjer brtt. um það, að lækka þetta útflutningsgjald um helming. Jeg þarf ekki að gera grein fyrir skoðun minni á málinu sjálfu. Það er kunnugt, að jeg hefi verið og er mótfallinn gjaldinu yfirleitt, en hefi nú viljað gera það til samkomulags að leggja aðeins til helmingslækkun á því. Jeg álít líka, að þetta sje fullkleift fjárhagsins vegna. Því þó nú sje í fjárlögum reikningslegur tekjuhalli, er í sjálfu sjer um raunverulegan tekjuafgang að ræða, fulla miljón króna, þar sem lagðar eru til hliðar um 1200 þús. kr., og þar við bætast svo ýmsir liðir í 13. gr. fjárlaganna, eða um 191 þús., sem stjórninni er að mestu í sjálfsvald sett, hvort hún greiðir eða ekki. Annars ætla jeg ekki að mæla frekar með till. minni. Gjaldið er sjálft ósanngjarnt, og því auðvitað sanngjarnt að lækka það, þegar ríkissjóður má líka við því.