22.03.1923
Efri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Kristjánsson:

Um leið og þetta mál fer hjeðan úr deildinni vil jeg fara um það nokkrum orðum, í samræmi við það, sem jeg hefi fyr á þingum haldið fram, er um beina skatta hefir verið að ræða.

Mín skoðun hefir verið sú, að beinir atvinnuskattar sjeu bæði ótryggur og óhollur gjaldstofn, nema þar sem verulegt auðsafn hefir myndast.

En verulegt auðsafn hefir ekki og getur ekki myndast hjer á landi, þar sem íbúatalan er tæpar 100 þúsundir.

Auðsafn getur aðeins myndast í stóru löndunum, þar sem íbúatalan nemur mörgum miljónum, og því stærra verður auðsafnið sem íbúatalan er stærri.

En það er eins og því hafi verið komið inn hjá þjóð vorri að skoða það skaðlegt þjóðfjelaginu, að einstakir menn komist í nokkur efni — og meira getur það aldrei orðið — og að einstakir menn reki stærri atvinnurekstur en t. d. búskap á jörð eða útveg á opnum bátum.

Ef fyrirtækin eru stærri. Þá verði að hegna þeim með háum, beinum sköttum, og það alveg eins, þótt stórreksturinn sje rekinn með litlum efnum og geipilegri áhættu.

Fjármálamenn munu þó líta svo á, að því meira sem þjóðarauðurinn getur vaxið, eftir því verði afkoma almennings betri. Þess vegna verður hvert land að reyna að stefna að því að koma fyrir sig þessum þjóðarauði, en það getur það ekki með því að taka nauðsynlegt veltufje og tryggingarfje af fyrirtækjunum, jafnótt og það aflast.

Þjóðarauðurinn getur aðeins vaxið með því móti:

1) að fara sparlega með fengið fje:

2) að forðast að veikja viljaþrek, vinnugleði og fjársöfnunarlöngun einstakra dugnaðarmanna og fjelaga með háum, beinum sköttum.

Þegar höfuðstóll vex sárlítið árlega, seinkar öllum framkvæmdum að sama skapi. Þannig þurfa ef til vill mörg ár til þess að geta bætt við sig einu fiskiskipi eða einu dýru búsáhaldi o. s. frv. En af því leiðir, að minna verður um vinnu í landinu.

Nú er það vitanlegt öllum rjettsýnum mönnum, að allur svonefndur stórrekstur í þessu landi er á frumbýlingsskeiði og að hann byrjaði mestmegnis með lánsfje. Hann á því langt í land að geta komist á það stig, að hann standi á eigin fótum og hafi nauðsynlegt rekstrarfje. Það má sennilega fullyrða, að ekkert af slíkum innlendum fyrirtækjum eigi sig sjálft.

Það liggur því augum uppi, að því meir sem tafið er fyrir því með háum beinum sköttum, að þetta bráðnauðsynlegasta auðsafn myndist, því lengri tími fer til þess að gera þjóðina efnalega sjálfbjarga.

Og það nauðsynlega auðsafn er þetta, að hvert fyrirtæki verði efnalega sjálfstætt, svo að það geti veitt þeim trygga atvinnu, sem við það vinna, og ríkissjóðnum sem tryggastar vaxandi tekjur.

Á meðan fyrirtækjunum eru að aukast efni, eins og jeg nú hefi sagt, má helst ekki leggja öllu meira á þau en venjulega bjargálnamenn, enda má telja þau í þeirra tölu á meðan fjárhagur þeirra er ekki betri en hann er, því ávalt verður þessi rekstur líka áhættumikill, og miklu áhættumeiri en t. d. iðnaður í útlöndum.

Aðaltryggingin fyrir lánsstofnanirnar, sem veita fyrirtækjunum lán, felst og í því, að þeim sje hlíft við óhæfilega háum beinum sköttum á meðan efnahagur þeirra er þröngur.

Mjög er alment, að t. d. botnvörpuskip græða annað árið, og gætu þá grynt á skuldum, ef arðurinn væri ekki af þeim tekinn, en tapa svo hitt árið.

Það árið, sem þau græða, verða þau eftir skattalögum vorum að greiða háan skatt. En ekkert er greitt til baka. þótt útgerð þessi tapi hitt árið. Þegar um jafnóvissan atvinnuveg er að ræða, mundi það vera sanngjarnt að byggja skattgreiðslu slíks atvinnuvegar eftir meðaltalsarði t. d. síðustu 5 áranna.

En örðugt mun vera að koma þeirri aðferð við nú, af því eigi er hægt að byggja á ástandi því, sem verið hefir síðustu árin.

En augljóst er það mörgum, að sá atvinnuvegur er illa staddur, og þolir því ekki háa beina skatta. umfram tolla, sem hvíla á flestu, sem hann notar.

Hins vegar getur verslunin í mörgum tilfellum velt sköttunum yfir á almenning, eins og reynslan er í öðrum löndum, og gert tekjuskattinn þar með að óbeinum skatti.

Beinu skatta fyrirkomulagið í stórum stíl er tiltölulega ungt, og munu Bandaríkin hafa gengið á undan með að innleiða það, vegna hins afarmikla auðs, sem safnast hefir á einstakar hendur í því 100 milj. íbúa landi. Þar var ástæða til að hafa háa beina skatta, þar sem auðurinn var orðinn svo mikill, að hann nam miklu meiru en því, sem útheimtist til þess, að atvinnufyrirtækin ættu sig sjálf og nauðsynlegt rekstrarfje.

Bandaríkin eru heldur ekki — eins og vjer — að elta hverja krónuna, því svo mun vera ákveðið í skattalögum þess lands frá 1918, að 1000 dollara tekjur eins manns sjeu skattfrjálsar. Hjón mega því draga frá árstekjunum 2000 dollara og 250 dollara fyrir hvert barn. 5 barna heimili má því draga frá skattskyldum tekjum 3250 dollara. eða um kr. 12187.50. Það er því augljóst, að allur almenningur er þar undanþeginn tekjuskatti.

Á Norðurlöndum munu beinu skattarnir hafa verið hæstir í Svíaríki, og hafa þeir haft þá verkun þar, að um 1920 var hvergi dýrara að lifa en þar. En þá voru Svíar líka farnir að viðurkenna, að þessir háu beinu skattar drægju úr áhuganum til að framleiða og til að spara saman fje, en af því stafi svo vinnuleysi.

Hafa sænskir bankafræðingar haldið fyrirlestra um þetta efni, bæði heima hjá sjer og t. d. í Kaupmannahöfn. Dansk Finanstidende 14. júlí 1920 geta um fyrirlestur, sem bankastjóri við Skandinavisk Kreditbolaget. O. Rydbeek, hjelt í Höfn, og er þar haft eftir honum þetta:

„Ef maður vill útrýma framtaksleysinu og auka sparsemi, verður í fyrstu röð að breyta beinum sköttum í óbeina skatta. .... Það er áríðandi að fá allan almenning til að hugsa meira um, hvað hann eyðir. En það er ekki hægt að fá almenning til að spara, nema gripið sje til hárra óbeinna skatta.“

Í sama árgangi þess blaðs. 10. nóv., er ritstjórnargrein um sama efni, sem segir meðal annars:

„Á meðan gnægð var af peningum og verðið þaut upp á við eins og sápukúla, gat þjóðfjelagið og atvinnugreinarnar þolað byrði beinu skattanna. Að vísu sáu allir fjármálamenn, að sú stefna var eyðilegging á allri sparsemislöngun, og öll þróunin í þessa átt var svo ólm, að ekki vanst tími til of mikillar íhugunar. Nú er verðfallið komið, ásamt því feikna hruni í viðskiftalífinu, og er þá viðhald slíkrar skattaaðferðar, er sviftir atvinnuvegina rekstrarfjenu og þjóðfjelagið starfsgleðinni, ógæfa, sem er vel fallin til að setja kórónuna á hið feiknamikla eyðileggingarstarf styrjaldaráranna.

Þetta er ekki sjerstaklega danskt fyrirbæri, heldur er það óhamingja, sem geisar um alla Evrópu og Ameríku og alstaðar vekur sömu skelfinguna eins og drepsótt og bruni.“ o. s. frv.

Þetta, sem erlendir fjármálamenn halda fram, að háir óbeinir skattar hvetji til sparsemi, kemur alveg heim við reynslu þeirra manna hjer á landi, sem stjórnað hafa vöruskifta- og lánsverslun. Þeir eru sammála um það, að þegar harðæri er í verslun og verð hátt á útlendum vörum, þá spari menn og minki skuldir sínar, en þegar góðæri sje í verslun og mikið aflist, þá vakni eyðslusemin og aukning skulda.

Það ætti því ekki að vera mikið á móti því að láta ríkissjóðinn beita sparnaðarmeðalinu með óbeinum sköttum, í staðinn fyrir að ráðast á fje, sem atvinnuvegirnir mega ómögulega án vera.

Auk þeirra ástæðna, sem hjer hefir verið bent á, er á margt annað að líta.

Vjer þekkjum, að mikill hluti verslunar vorrar er á útlendum höndum, sem hafa aðalskrifstofu sína og heimilisfang í útlöndum. Þessir útlendu menn ráða því alveg, hvernig verslun þeirra hjer er gerð upp, eða á hvaða tölum sú uppgerð er bygð; þeir geta því alveg ráðið því, hvort þeir borga mikinn eða lítinn tekjuskatt af atvinnu, og geta meira að segja notað slíkar beinar skattaálögur til að skapa drepandi samkepni við innlenda verslun, sem skattana verður að greiða. Og alveg eins geta þeir farið að með útgerð í stórum stíl. Þetta getur leitt til þess, að eigendur innlendra verslana og útgerðar, sem hafa háar tekjur á pappírnum. flytji sig t. d. til Danmerkur, þar sem ódýrara er að lifa og skattarnir miklu lægri, og reki fyrirtækin þaðan.

Ef vjer berum saman atvinnuskattinn í Danmörku við skattinn eftir frumvarpi því, sem nú á að samþykkja, þá er hann t. d. af 75 þúsund króna tekjum eftir frv. kr. 14387.00, en af sömu upphæð í Danmörku kr. 8787.00, og af 100 þús. króna tekjum eftir frv. kr. 20637.00, en í Danmörku kr. 13162.00. Og þó eru allir persónulegir skattar dregnir frá tekjunum í Danmörku, skattur til ríkis. sveitar og kirkju.

Þá má ennfremur taka fram, að fyrirtæki, sem hafa „firma“ bæði hjer og erlendis, þótt innlend sjeu, eða hafa þar trúnaðarmenn, geta auðveldlega skotið sjer undan háum beinum sköttum, án þess að skattstjórnin hjer geti nokkuð við ráðið.

Einnig af þessum ástæðum er það augljóst, að sú stefna er alt annað en holl að ætla sjer að setja tekjuskattinn svo háan, að menn freistist til að beita slíkum undanbrögðum. Væri skattinum stilt í hóf, mundu menn greiða hann fúslega og eigi vilja vinna til að beita neinum undanbrögðum.

Það ætti því að vera augljóst, að þótt tekjur vanti í ríkissjóðinn, þá tjáir ekki að ætla sjer að ná þeim með síhækkandi beinum sköttum af aðalatvinnufyrirtækjunum.

Ef litið er til fyrirhafnarinnar og kostnaðarins við að innheimta þennan atvinnutekjuskatt, þá er það ekki samanberandi við innheimtu óbeinu skattanna, er sýslumenn og bæjarfógetar innheimta einir.

Það er upplýst, að utan Reykjavíkur hafi tekjuskattur þessi numið síðast um 400 þús. krónum. Af þessum 400 þús. kr. komu úr kaupstöðunum utan Reykjavíkur um 200 þús. kr., eða helmingurinn. Hinn helmingurinn, 200 þús. kr., hefir því komið úr öllum kauptúnum og hreppum landsins, en hrepparnir eru 203 talsins.

Í hverjum hreppi er 3 manna undirskattanefnd, sem settar eru um alt land til þess að smala saman þessum 200. þús. kr., eða yfir 600 manns, — úrvalsmenn þjóðarinnar, sem verða flestir nauðugir, að fara frá störfum í viku til hálfan mánuð eða meira, til þess að standa fyrir framtali manna og leiðbeina þeim, sem víða tekst ekki nema fara heim á hvert heimili.

Hina 30 blaðsíðna löngu reglugerð í Stjórnartíðindunum munu fæstir gjaldendur sjá, enda er hún alt of umfangsmikil fyrir almenning.

Við þetta bætist svo 3 manna yfirskattanefnd í hverri sýslu.

Og aðalstarfið felst í því að ákveða fárra króna skatt hjá öllum fjöldanum af skattgreiðendum, mjög oft 1 kr.

Ólíku „praktiskara“ væri að leysa þessa menn alveg undan þessum tekjuskatti, eða menn, sem hafa eigi meira en 2000 króna tekjur, en taka heldur þann hluta skattsins með tollum.

Og þar sem allhár tollur er þegar kominn á flestar vörutegundir, sem því nær til allra, þá ætti hinn óbeini skattur á þeim efnaminni gjaldendum að vera nægur.

Þá eru það ýmsir menn, sem halda því fram, að það megi ekki hafa útflutningstolla. Þeir hafa á móti því að skattleggja „framleiðsluna“ sem þeir kalla.

Nú er Ísland framleiðsluland og lifir nálega eingöngu á framleiðslu.

Arðurinn af henni verður því að ganga til þess að greiða með beinu skattana og aðflutningstollana. Og hvers vegna má þá ekki eins leggja háan útflutningstoll á framleiðsluna, sem lítið er haft fyrir að innheimta og kemur skilvíslega og undanbragðalaust í ríkissjóðinn.

Jeg sje það ekki.

Best mun fara að nota báðar tollaálöguaðferðirnar, bæði innflutnings- og útflutningstoll. eins og gert hefir verið um mörg ár. —

Þó jeg neyðist til að greiða þessu frv. atkvæði, af því ekkert annað betra frv. liggur fyrir, þá er jeg alls ekki ánægður með það. Jeg verð auðvitað að meta mest, að ríkissjóðurinn má ekki vera án þeirrar tekjuupphæðar, sem frumvarpið tryggir honum.