20.02.1923
Efri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

11. mál, fátækralög

Jón Magnússon:

Jeg stend upp til að beina fyrirspurn að hæstv. atvrh. (KIJ) um það, hvort þörf sje á 3. gr. frv., því að eftir núgildandi fátækralögum er það á valdi atvinnumálaráðuneytisins, hvernig skýrsla sú er útbúin, sem taka á af utan sveitarþurfalingi áður en honum er veittur styrkur.

Þá er annað atriði, sem jeg vildi minnast á. Það er viðvíkjandi fátækraflutningnum. Eftir núgildandi lögum má engan flytja fátækraflutningi, nema hann hafi áður þegið 100 kr., enda sje hann kominn á stöðugt sveitarframfæri. Jeg sje ekki, að í 4. gr. frv. sje farið lengra en í gildandi lögum: þvert á móti. Þá vil jeg geta þess, að mjer hefði fundist eðlilegast í þessu sambandi, að styrkur, sem veittur er og eigi á að hafa sömu verkanir á rjettindamissi og sveitarstyrkur alment, væri undanskilinn þessu ákvæði fátækralaganna.