09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

11. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg ætla ekki að halda langa tölu að þessu sinni, en verið getur, að jeg fari um málið fleiri orðum, þegar aðrir hafa látið til sín heyra. Jeg vil aðeins benda á, að ef háttv. deild fellst ekki á brtt. nefndarinnar, þá verður að gera talsverðar breytingar á 4. gr. Jeg sje ekki betur en að hún sje í mótsögn við það, sem tekið er fram í athugasemdunum; hún hefir líklega ruglast eitthvað á einhverju stigi málsins. Í athugasemdunum er sagt, að herða eigi á skilyrðum gagnvart sveitarstjórnum, en 4. gr. herðir þau gagnvart þurfalingum, því þar er skilyrðislaust leyft að flytja þurfaling, ef framfærslusveit krefst þess, og skilyrðin fyrir dvalarsveit eru gerð rýmri en nú er.

Jeg vil einnig geta þess, að það varð ofan á í nefndinni, að fallast á till. stjórnarinnar um 5 ára sveitfestistíma, en þó var því þegar hreyft, að sá tími mætti vera styttri, og einn nefndarmaður, hv. 2. þm. Rang. (GGuðf), var ekki viss um, að hann gæti fylgt till. um 5 ár, ef till. um styttri tíma kæmi fram. Atkvæði hans um þetta atriði er því óbundið. Jeg vil ekki fara hjer út í þetta atriði, en mikið hefir verið um það deilt. Það er ofsagt, að óteljandi till hafi komið fram síðan um aldamót, en fjarska margar hafa þær verið. Munurinn á 5 og 3 árum er í raun og veru ekki svo mikill í þessu sambandi; það er fyrst þegar fært er niður í 1 ár, að um verulegan mun er að ræða, því þá má nærri því segja, að dvalarsveit ráði um framfærsluskyldu, Sumir hafa jafnvel viljað fara svo langt að binda þetta ekki einu sinni við lögheimili, heldur staðinn sem maðurinn er staddur á, en ár í þá sálma vil jeg ekki fara hjer. Jeg mun fylgja till. stjórnarinnar, enda er sanni næst, að hún ætti að fá helst fylgi manna.

Jeg vil svo ekki ræða þetta mál meira að sinni, heldur bíða þar til aðrir hafa látið álit sitt í ljós.