09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. frsm. (JM) sagði, að rjettara væri að taka ákvæðið úr stjórnarskránni, en leyfa sveitarstjórnum að haga styrkveitingum eins og þeim þóknaðist. Á þetta mintist jeg einmitt, er málið var til meðferðar í háttv. Nd. í fyrra, og var mjer þá svarað því, að eigi væri auðgert að gera slíkt, enda er ávalt varhugavert að fara út í breytingar á stjórnarskránni, þótt eitthvert tilefni sje, en annars vill svo vel til, að nú gefst einmitt tækifæri til að athuga hvort eigi væri gerlegt að afnema 29. gr. í stjórnarskránni, þar sem háttv. Nd. hefir einmitt í meðförum aðra breytingu á henni.

Háttv. frsm. (JM) hjelt því fram, að frv. væri óskýrt, að með því væri blandað saman líknarstarfsemi og ríkishjálp. En hvað segir háttv. þm. (JM) þá um berklavarnalögin? Ef í nokkrum lögum er blandað saman líknarstarfsemi og ríkishjálp, þá er það í þeim. Því þau ganga í þá átt, að þeir, sem eigi hafa efni á að leita sjer lækninga sjálfir, fá til þess hjálp frá ríkinu. Er það í fullu samræmi við það, sem jeg hjelt fram áðan, að frv. þetta væri beint áframhald af þeim lögum og hinum, er fjalla um sjúkrahúsvist. Það er nú líka í fullu samræmi við það, að það er nú orðin föst regla hjá sveitar- og bæjarfjelögum að reyna að velta öllum slíkum kostnaði yfir á ríkissjóð. Þá mintist hv. frsm. (JM) á það, að rjett væri að gera fátækrafjelögin stærri. Þetta getur verið álitamál, og má vel vera, að þetta sje heppileg ráðstöfun. t. d. að hver sýsla væri fátækrafjelag fyrir sig. Sumir hafa jafnvel viljað, að landið væri eitt fátækrafjelag alt, og væri með því rutt úr vegi þeim örðugleikum, sem fátækraflutningur oft hefir í för með sjer. En auðvitað mundi slík breyting þurfa mikinn og góðan undirbúning.

Enn fremur mintist háttv. frsm. (JM) á það, að ef styrkur sá, sem gamalmennum, 65 ára og þar yfir, yrði veittur, skyldi eigi skoðast sem fátækrastyrkur, þá mundu þau gamalmenni, sem nú eru styrkt af einstökum mönnum, þegar er þeim væri heimill styrkurinn án þessa rjettindamissis, sækja um hann. Það má vel vera, að til sjeu einstaka menn, sem þetta mundu gera. En þó hygg jeg, að eigi mundu svo mikil brögð að því, sem háttv. frsm. vildi vera láta, því að flestir manna þessara njóta framfærslu vina sinna og vandamanna, og veit jeg það af þeim, sem jeg nú hefi í huga, að flest mundu gamalmenni una því illa að þurfa að njóta framfærslustyrks af almannafje, og þá vandamenn þeirra eigi sækja um slíkan styrk á móti skapi þeirra.

Jeg skal svo eigi fara nánar út í mál þetta að sinni.