09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

11. mál, fátækralög

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg skal eigi lengja umr. mjög mikið; en mig langaði til að minnast ofurlítið á 2. gr. fr.

Eins og mönnum mun vera kunnugt, hefi jeg ávalt haft mikinn áhuga fyrir því, að gamalmennum væri sem best trygt lífsuppihald. En jeg vil, að það sje á öðrum og heilbrigðari grundvelli en þeim, sem í frv. ræðir um. Jeg vil að það verði á þeim grundvelli, að menn þegar á unga aldri hafi huga á því að tryggja sjer ellistyrk, svo að þeir þurfi ekki að eiga það á hættu að eiga uppeldi sitt undir hreppseða ríkissjóði. Og einkum virðist mjer, þegar litið er á los og eyðslusemi unga fólksins nú á dögum, að ákvæði þetta sje mjög óheppilegt, enda þótt það að vísu líti mannúðlega út í svipinn. Frakkar hafa haft svipað fyrirkomulag hjá sjer, og hefir það gefist illa. Annars álít jeg, að þetta eigi frekar heima í ellistyrktarsjóðslögunum. Er jeg því eindregið á því, að þetta falli burtu. En um sveitfestistímann hefi jeg óbundnar hendur. Jeg mun því greiða till. Háttv. 2. þm. Eyf. (EÁ) atkvæði mitt.